Handan sannleikans Bergur Ebbi skrifar 25. nóvember 2016 07:00 Oxford-orðabókin hefur valið orð ársins á alþjóðavettvangi. Orðið er „post-truth“. Það hefur mikið verið notað af fjölmiðlum í tengslum við pólitík. Sem dæmi má nefna rakalausar lygar Donalds Trump um að Barack Obama sé fæddur utan Bandaríkjanna eða málflutning Brexit-stuðningsmanna um að vera Bretlands í Evrópusambandinu hafi kostað skattgreiðendur þar í landi 350 milljónir punda vikulega. Þetta er í sjálfu sér rétt. Það er óumdeilanlegt að stjórnmálamaður eins og Donald Trump hefur gengið miklu lengra í að beygja sannleikann og ljúga blákalt heldur en fyrirrennarar hans á hinu stóra sviði. Það hefur orðið eðlisbreyting á því hvað telst boðlegt í stjórnmálaumræðu.Rosalegur fyrirvari En horfum á þetta í stærra samhengi. Fjölmiðlar eru iðnir við að spyrja spurninga eins og hvers vegna staðreyndir skipti ekki lengur máli. Nefndir hafa verið hlutir eins og rof milli pólitískrar elítu og vinnandi fólks, bitleysi hefðbundinnar stjórnmálaumræðu og hin langa hefð fyrir gráu svæði og hálfsannleika. Það er búið að daðra svo lengi við lygina að kannski þykir sumum hreinlega hressilegt að fá hana ómengaða. Þetta eru ágætar pælingar en mér finnst þær ekki svara réttu spurningunni. Rétta spurningin, að mínu mati, er hvers vegna leiðsögn fjölmiðla hafi ekki tekist að stýra fólki frá ýkjum og útúrsnúningum stjórnmálamanna. Það er spurning sem fjölmiðlar geta ekki spurt því hún varðar þá sjálfa. Hvað eru fjölmiðlar að gera vitlaust? Ég ætla að gerast svo djarfur að segja að hugtök eins og „post-truth“ séu sjálf hluti af vandamálinu, hugtök sem fjölmiðlar nota óspart en hafa takmarkaða þýðingu.Að standa með sannleikanum Hvað þýðir „post-truth“? Að eitthvað sé handan sannleikans, ekki andstæða sannleikans heldur uppfyllingarefni sem kemur í hans stað? Að tími sannleikans sé liðinn? Eða er hugtakið bara einn stór fyrirvari sem felur í sér að lygar séu að sigra sannleikann? Að skilgreina samtíma sinn sem tímabil „handan sannleika“ er bara eilítið fallegri leið til að segja „ég gefst upp“. Hugtakið er leið til að afsala sér ábyrgð á ástandinu. Heimurinn er stútfullur af lygum, rétt eins og hann hefur alltaf verið. Það er hlutverk þeirra sem greina heiminn að finna þessar lygar. Ef lygar eru orðnar aðgengilegri en áður og léttara að dulbúa þær þá þurfa fjölmiðlar að kanna hvers vegna svo sé. Þeir þurfa að kanna og greina heiminn en ekki gefa sér þann gríðarlega fyrirvara að við lifum á tímum sem séu handan sannleika. Sannleikurinn getur nefnilega leynst víða og hann er oft þversagnakenndur. Að leita sannleikans er ekki heldur aðeins fólgið í því að elta rökin og staðreyndirnar. Sannleikurinn býr líka í tilfinningum okkar. Að standa með skoðun sinni og vera óhræddur við að kalla lygar sínu rétta nafni, er líka leiðin að sannleikanum. „Post-truth“ er aum leið til að horfast í augu við lygina.Lífsleiðir aristókratar Að mínu mati ætti ekki að nota óljós hugtök eins og „post-truth“ til að skilgreina samtímann. Það sem skilgreinir okkar tíma frekar en nokkuð annað er áberandi skortur á að taka ábyrgð á meiningu hluta. Fjölmiðlar ættu ekki að vera undanskildir því. Ábyrgðinni á túlkun frétta og staðreynda er sífellt skotið til lesenda. Fyrirsagnir með beinum tilvitnunum verða algengari. Málefni eru sögð „umdeild“ í stað þess að afstaða sé tekin um hvað sé rétt. Lesendur eiga að mynda sér sína eigin skoðun en varpa ábyrgðinni einnig frá sér með því að snúa fréttum upp í hálfkæring. Niðurstaðan er sú að það er eins og annar hver maður sé orðinn að lífsleiðum aristókrata. Margir jafnaldrar mínir gætu varla myndað sér skoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu án þess að hljóma eins og Oscar Wilde, fullir af djúpstæðum efa um eiginlegan tilgang skoðana sinna. Ég finn þennan dofa sjálfur. Ég hef sjaldan djúpar skoðanir á hlutum, en þó koma einstaka sinnum skýrar glætur í kollinn. Einstaka sinnum þekki ég allavega lygi þegar ég sé hana. „Post-truth“ er lygi. Það er lygi fjölmiðlanna sjálfra. Við lifum ekki handan sannleikans. Við lifum bara ekki á sömu tímum og fyrir tuttugu árum og það þarf öðruvísi vinnubrögð til að vinsa lygina frá. Það er ekki nóg fyrir fjölmiðla að hringja í sérfræðinga til að finna sannleikann. Það er ekki heldur nóg að þylja upp staðreyndir, fá álit fjöldans eða pikka upp athugasemdir af samfélagsmiðlum. Til að finna sannleikann þarf greiningar sem setja fréttir í samhengi, gefa þeim meiningu og standa með þeirri meiningu. Það er offramboð á hér um bil öllu öðru.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Brexit Donald Trump Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Oxford-orðabókin hefur valið orð ársins á alþjóðavettvangi. Orðið er „post-truth“. Það hefur mikið verið notað af fjölmiðlum í tengslum við pólitík. Sem dæmi má nefna rakalausar lygar Donalds Trump um að Barack Obama sé fæddur utan Bandaríkjanna eða málflutning Brexit-stuðningsmanna um að vera Bretlands í Evrópusambandinu hafi kostað skattgreiðendur þar í landi 350 milljónir punda vikulega. Þetta er í sjálfu sér rétt. Það er óumdeilanlegt að stjórnmálamaður eins og Donald Trump hefur gengið miklu lengra í að beygja sannleikann og ljúga blákalt heldur en fyrirrennarar hans á hinu stóra sviði. Það hefur orðið eðlisbreyting á því hvað telst boðlegt í stjórnmálaumræðu.Rosalegur fyrirvari En horfum á þetta í stærra samhengi. Fjölmiðlar eru iðnir við að spyrja spurninga eins og hvers vegna staðreyndir skipti ekki lengur máli. Nefndir hafa verið hlutir eins og rof milli pólitískrar elítu og vinnandi fólks, bitleysi hefðbundinnar stjórnmálaumræðu og hin langa hefð fyrir gráu svæði og hálfsannleika. Það er búið að daðra svo lengi við lygina að kannski þykir sumum hreinlega hressilegt að fá hana ómengaða. Þetta eru ágætar pælingar en mér finnst þær ekki svara réttu spurningunni. Rétta spurningin, að mínu mati, er hvers vegna leiðsögn fjölmiðla hafi ekki tekist að stýra fólki frá ýkjum og útúrsnúningum stjórnmálamanna. Það er spurning sem fjölmiðlar geta ekki spurt því hún varðar þá sjálfa. Hvað eru fjölmiðlar að gera vitlaust? Ég ætla að gerast svo djarfur að segja að hugtök eins og „post-truth“ séu sjálf hluti af vandamálinu, hugtök sem fjölmiðlar nota óspart en hafa takmarkaða þýðingu.Að standa með sannleikanum Hvað þýðir „post-truth“? Að eitthvað sé handan sannleikans, ekki andstæða sannleikans heldur uppfyllingarefni sem kemur í hans stað? Að tími sannleikans sé liðinn? Eða er hugtakið bara einn stór fyrirvari sem felur í sér að lygar séu að sigra sannleikann? Að skilgreina samtíma sinn sem tímabil „handan sannleika“ er bara eilítið fallegri leið til að segja „ég gefst upp“. Hugtakið er leið til að afsala sér ábyrgð á ástandinu. Heimurinn er stútfullur af lygum, rétt eins og hann hefur alltaf verið. Það er hlutverk þeirra sem greina heiminn að finna þessar lygar. Ef lygar eru orðnar aðgengilegri en áður og léttara að dulbúa þær þá þurfa fjölmiðlar að kanna hvers vegna svo sé. Þeir þurfa að kanna og greina heiminn en ekki gefa sér þann gríðarlega fyrirvara að við lifum á tímum sem séu handan sannleika. Sannleikurinn getur nefnilega leynst víða og hann er oft þversagnakenndur. Að leita sannleikans er ekki heldur aðeins fólgið í því að elta rökin og staðreyndirnar. Sannleikurinn býr líka í tilfinningum okkar. Að standa með skoðun sinni og vera óhræddur við að kalla lygar sínu rétta nafni, er líka leiðin að sannleikanum. „Post-truth“ er aum leið til að horfast í augu við lygina.Lífsleiðir aristókratar Að mínu mati ætti ekki að nota óljós hugtök eins og „post-truth“ til að skilgreina samtímann. Það sem skilgreinir okkar tíma frekar en nokkuð annað er áberandi skortur á að taka ábyrgð á meiningu hluta. Fjölmiðlar ættu ekki að vera undanskildir því. Ábyrgðinni á túlkun frétta og staðreynda er sífellt skotið til lesenda. Fyrirsagnir með beinum tilvitnunum verða algengari. Málefni eru sögð „umdeild“ í stað þess að afstaða sé tekin um hvað sé rétt. Lesendur eiga að mynda sér sína eigin skoðun en varpa ábyrgðinni einnig frá sér með því að snúa fréttum upp í hálfkæring. Niðurstaðan er sú að það er eins og annar hver maður sé orðinn að lífsleiðum aristókrata. Margir jafnaldrar mínir gætu varla myndað sér skoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu án þess að hljóma eins og Oscar Wilde, fullir af djúpstæðum efa um eiginlegan tilgang skoðana sinna. Ég finn þennan dofa sjálfur. Ég hef sjaldan djúpar skoðanir á hlutum, en þó koma einstaka sinnum skýrar glætur í kollinn. Einstaka sinnum þekki ég allavega lygi þegar ég sé hana. „Post-truth“ er lygi. Það er lygi fjölmiðlanna sjálfra. Við lifum ekki handan sannleikans. Við lifum bara ekki á sömu tímum og fyrir tuttugu árum og það þarf öðruvísi vinnubrögð til að vinsa lygina frá. Það er ekki nóg fyrir fjölmiðla að hringja í sérfræðinga til að finna sannleikann. Það er ekki heldur nóg að þylja upp staðreyndir, fá álit fjöldans eða pikka upp athugasemdir af samfélagsmiðlum. Til að finna sannleikann þarf greiningar sem setja fréttir í samhengi, gefa þeim meiningu og standa með þeirri meiningu. Það er offramboð á hér um bil öllu öðru.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.