Bryndís Rún Hansen varð annar Íslendingurinn á HM í 25 m laug í Kanada til að komast í undanúrslit í sinni grein en það gerði hún í 50 m flugsundi nú síðdegis.
Bryndís synti á 26,22 sekúndum og bætti þar með Íslandsmet sitt í greininni sem var 26,70 sekúndur. Hún hafnaði í fimmtánda sæti en alls komust sextán keppendur áfram í undanúrslitin.
Keppni í undanúrslitum í greininni hefst klukkan 00.15 í nótt en þar komast átta bestu keppendurnir áfram í úrslitin.
Hrafnhildur Lúthersdóttir komst í undanúrslit í 50 m bringusundi fyrr í vikunni.
Hér fyrir neðan er fylgst með gangi mála í öllum keppnisgreinum dagsins á HM í sundi.
