Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Vinstri græn leggi á það áherslu að Samfylkingin komi inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Vinstriblokk stjórnarinnar hefði þá þrettán þingmenn en Sjálfstæðisflokkur 21. Ekki komi til greina að fá Pírata í stjórn af hálfu Sjálfstæðisflokks og ekki komi til greina að Framsóknarflokkur verði þriðji flokkur í stjórn, af hálfu Vinstri grænna. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist sjálfur hafa heyrt að sá möguleiki hafi verið ræddur.

Í samtali við fréttastofu í gær sagði Bjarni Benediktsson að hans vonir stæðu til að hægt væri að gera vopnahlé um ákveðin mál sem ágreiningur er um.
„Og leggja til hliðar þau mál sem flokkarnir, sem eiga að starfa með honum, berjast fyrir? Ef það eru stjórnarskráin, Evrópumálin og sjávarútvegurinn þá segi ég bara nei, við munum ekki gera vopnahlé um slík mál,“ segir Logi.
Heimildir Fréttablaðsins herma að Viðreisn, Píratar, Samfylking og Björt framtíð séu jafnvel tilbúin að reyna aftur við fimm flokka stjórn.
Ákveðið hefur verið að þing komi saman 6. desember næstkomandi, óháð því hvort ný ríkisstjórn hafi verið mynduð eða ekki.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu