Uppgjör við líf kynslóðar Magnús Guðmundsson skrifar 14. desember 2016 10:30 Bækur Sofðu ást mín Útgefandi: Mál og menning Fjöldi síðna: 139 bls Kápa: Alexandra Buhl/Forlagið Prentun: Oddi Eitt það athyglisverðasta við höfundarverk Andra Snæs Magnasonar er fjölbreytnin. Smásögur, skáldsögur, barnabækur, ljóð, ritgerðir og allt með sínum hætti. Í nýjustu bók Andra Snæs, Sofðu ást mín, leitar hann að nýju í form smásögunnar en langt er um liðið og löngu tímabært að höfundurinn endurnýi kynni sín við formið. Sofðu ást mín samanstendur af sjö smásögum sem þrátt fyrir að standa vel einar og sér tengjast einnig lauslega í gegnum persónur og ákveðin þemu. Sofðu ást mín er ótvírætt ein persónulegasta og einlægasta bók Andra Snæs til þessa. Vel að merkja þá þýðir það ekki að höfundurinn hafi ekki lagt líf og sál í fyrri bækur, heldur finnur lesandinn hér meira fyrir persónu höfundarins og jafnvel einkalífi með mun afdráttalausari hætti en áður. Andri Snær benti líka á í viðtali í Fréttablaðinu að ein sagan, Lególand, væri í raun og veru sótt beint í líf hans. Hún er með öðrum orðum sjálfsævisögulegt verk. Lególand er líka ótvírætt ein besta, ef ekki besta, saga bókarinnar enda finnur lesandinn þar vel fyrir einlægni í tilfinningalífi sögumanns og höfundinum sjálfum. Sé horft á sögurnar í heild þá má vel lesa úr þeim tiltölulega heildstætt lífshlaup manneskju á sama reki og höfundur. Lífshlaup sem snertir ýmis af þeim almennu málum sem varða viðkomandi kynslóð, svo sem baráttuna við að koma þaki yfir höfuðið, velja sér lífsviðurværi og annað slíkt. En líka mál sem samfélagið hefur staðið frammi fyrir svo sem náttúruvernd og græðgisvæðingu kynslóðarinnar sem náði hátindi sínum og siðferðislegum botni í senn í góðærinu árið 2007. En virðist um margt nota bene vera að ná vopnum sínum á ný ef marka má peningadýrkun íslensks samfélags. Það er reyndar áberandi hversu miklu betur Andra Snæ tekst upp þegar málin virðast snerta hann persónulega og hann leyfir einlægri en sjálfsgagnrýnni rödd að njóta sín. Ágætt dæmi er titilsagan Sofðu ást mín, þar sem skáldið tekst á við útþynnta merkingu gildishlaðins orðs í nútíma samfélagi. En einnig hvernig Andri Snær skoðar eigin ágalla og takmarkanir sem sjálfhverfrar manneskju í Lególandi, en báðar eru þessar sögur mjög sterkar og vel heppnaðar. Hins vegar finnur maður líka aðeins fyrir ákveðinni fjarlægð höfundar frá kvenpersónunni Brynju í Wild Boys sem fyrir vikið stendur meira eins og vitnisburður um vitfirringu kynslóðarinnar sem græðgisvæddist ung að aldri í úthverfum Reykjavíkur. Höfundi virðist blöskra hegðunin, skiljanlega, og það veldur því að persónurnar verða ekki alveg jafn raunverulegar, einlægar og djúpar og í hinum sögunum. Þar með rennur tækifærið til samlifunar aðeins frá höfundi en það er í raun aðeins í þessari einu sögu. Heilt yfir er Sofðu ást mín persónuleg og einlæg skoðun á atferli og tilfinningalífi kynslóðar og þar sem höfundur virkjar líf sitt til verksins, fremur en að fylgjast með úr fjarska, þá tekst best til. Það er margt heillandi við höfundarverk Andra Snæs. Hann hefur tekist á við brýn málefni í ritgerðarskrifum, látið kröftugt ímyndunaraflið ráða för í skáldverkum fyrir börn og fullorðna og tekist á við ýmis form bókmenntanna. Allt hefur það verið unnið af vandvirkni og metnaði en hingað til er ekki laust við undirritaður hafi á stundum saknað tilfinningar og einlægni. En hér kveður við nýjan og persónulegri tón sem er óskandi að Andri Snær nái að vinna með áfram og virkja til góðra verka í komandi skáldverkum.Niðurstaða: Vel skrifaðar, einlægar og lauslega tengdar sögur mynda sterka heildarmynd.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. desember. Bókmenntir Mest lesið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun Halda til Spánar að smakka messuvín fyrir þjóðkirkjuna Bíó og sjónvarp Sýn, Síminn og RÚV standa að baki nýjum sjónvarpsverðlaunum Bíó og sjónvarp Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum Lífið Átta ár án áfengis og fíkniefna Lífið Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Gummi kíró kom Elísabetu til bjargar Jól Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Bækur Sofðu ást mín Útgefandi: Mál og menning Fjöldi síðna: 139 bls Kápa: Alexandra Buhl/Forlagið Prentun: Oddi Eitt það athyglisverðasta við höfundarverk Andra Snæs Magnasonar er fjölbreytnin. Smásögur, skáldsögur, barnabækur, ljóð, ritgerðir og allt með sínum hætti. Í nýjustu bók Andra Snæs, Sofðu ást mín, leitar hann að nýju í form smásögunnar en langt er um liðið og löngu tímabært að höfundurinn endurnýi kynni sín við formið. Sofðu ást mín samanstendur af sjö smásögum sem þrátt fyrir að standa vel einar og sér tengjast einnig lauslega í gegnum persónur og ákveðin þemu. Sofðu ást mín er ótvírætt ein persónulegasta og einlægasta bók Andra Snæs til þessa. Vel að merkja þá þýðir það ekki að höfundurinn hafi ekki lagt líf og sál í fyrri bækur, heldur finnur lesandinn hér meira fyrir persónu höfundarins og jafnvel einkalífi með mun afdráttalausari hætti en áður. Andri Snær benti líka á í viðtali í Fréttablaðinu að ein sagan, Lególand, væri í raun og veru sótt beint í líf hans. Hún er með öðrum orðum sjálfsævisögulegt verk. Lególand er líka ótvírætt ein besta, ef ekki besta, saga bókarinnar enda finnur lesandinn þar vel fyrir einlægni í tilfinningalífi sögumanns og höfundinum sjálfum. Sé horft á sögurnar í heild þá má vel lesa úr þeim tiltölulega heildstætt lífshlaup manneskju á sama reki og höfundur. Lífshlaup sem snertir ýmis af þeim almennu málum sem varða viðkomandi kynslóð, svo sem baráttuna við að koma þaki yfir höfuðið, velja sér lífsviðurværi og annað slíkt. En líka mál sem samfélagið hefur staðið frammi fyrir svo sem náttúruvernd og græðgisvæðingu kynslóðarinnar sem náði hátindi sínum og siðferðislegum botni í senn í góðærinu árið 2007. En virðist um margt nota bene vera að ná vopnum sínum á ný ef marka má peningadýrkun íslensks samfélags. Það er reyndar áberandi hversu miklu betur Andra Snæ tekst upp þegar málin virðast snerta hann persónulega og hann leyfir einlægri en sjálfsgagnrýnni rödd að njóta sín. Ágætt dæmi er titilsagan Sofðu ást mín, þar sem skáldið tekst á við útþynnta merkingu gildishlaðins orðs í nútíma samfélagi. En einnig hvernig Andri Snær skoðar eigin ágalla og takmarkanir sem sjálfhverfrar manneskju í Lególandi, en báðar eru þessar sögur mjög sterkar og vel heppnaðar. Hins vegar finnur maður líka aðeins fyrir ákveðinni fjarlægð höfundar frá kvenpersónunni Brynju í Wild Boys sem fyrir vikið stendur meira eins og vitnisburður um vitfirringu kynslóðarinnar sem græðgisvæddist ung að aldri í úthverfum Reykjavíkur. Höfundi virðist blöskra hegðunin, skiljanlega, og það veldur því að persónurnar verða ekki alveg jafn raunverulegar, einlægar og djúpar og í hinum sögunum. Þar með rennur tækifærið til samlifunar aðeins frá höfundi en það er í raun aðeins í þessari einu sögu. Heilt yfir er Sofðu ást mín persónuleg og einlæg skoðun á atferli og tilfinningalífi kynslóðar og þar sem höfundur virkjar líf sitt til verksins, fremur en að fylgjast með úr fjarska, þá tekst best til. Það er margt heillandi við höfundarverk Andra Snæs. Hann hefur tekist á við brýn málefni í ritgerðarskrifum, látið kröftugt ímyndunaraflið ráða för í skáldverkum fyrir börn og fullorðna og tekist á við ýmis form bókmenntanna. Allt hefur það verið unnið af vandvirkni og metnaði en hingað til er ekki laust við undirritaður hafi á stundum saknað tilfinningar og einlægni. En hér kveður við nýjan og persónulegri tón sem er óskandi að Andri Snær nái að vinna með áfram og virkja til góðra verka í komandi skáldverkum.Niðurstaða: Vel skrifaðar, einlægar og lauslega tengdar sögur mynda sterka heildarmynd.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. desember.
Bókmenntir Mest lesið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun Halda til Spánar að smakka messuvín fyrir þjóðkirkjuna Bíó og sjónvarp Sýn, Síminn og RÚV standa að baki nýjum sjónvarpsverðlaunum Bíó og sjónvarp Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum Lífið Átta ár án áfengis og fíkniefna Lífið Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Gummi kíró kom Elísabetu til bjargar Jól Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira