Hið finnska Nokia ætlar í mál við tæknirisann Apple vegna meintra höfundarréttarbrota. Apple lagði hins vegar fram kæru á hendur nokkrum aðilum í gær sem fyrirtækið telur kúga sig með því að rukka um stjarnfræðilegar upphæðir fyrir slík afnot.
Hefur Nokia lagt fram kærur bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum vegna þessa en fyrirtækið á höfundarrétt á fjölda þátta sem þarf til þess að framleiða snjallsíma, spjaldtölvur og sambærilega tækni.
„Nokia hefur skapað eða átt þátt í sköpun mikilvægrar tækni sem notuð er í snjallsímum nútímans, þar á meðal vörum Apple. Eftir nokkurra ára samningaviðræður þar sem við höfum reynt að fá Apple til að greiða fyrir afnot af tækninni erum við nú að grípa til aðgerða,“ sagði Ikka Rahnasto hjá Nokia í yfirlýsingu í gær.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
