Fjölmiðlar á Norðurlöndum hafa á síðustu klukkustundum fjallað um hvarf Birnu Brjánsdóttur og nýjustu vendingar í málinu.
Grænlenski fjölmiðillinn KNR og færeysku fjölmiðlarnir KVF og in.fo fjalla allir um tengsl hvarfsins við grænlenska togarann Polar Nanoq sem nú er siglt aftur til Íslands eftir að hafa legið við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn. Færeyingar eru í hópi áhafnarmeðlima skipsins.
Í frétt in.fo segir að margir Færeyingar séu í áhöfn grænlenska togarans.
Sænska Aftonbladet birtir ítarlega frétt um hvarfið, líkt og danska Ekstrabladet sem ræðir við Erik Bøttger, talsmann danska hersins, en íslenska lögreglan óskaði í gær eftir aðstoð danska herskipsins Tríton vegna rannsóknarinnar.
