Vittus Qujaukitsoq, ráðherra utanríkismála í grænlensku heimastjórninni, hefur hætt við fyrirhugaða þátttöku sína í norðurslóðaráðstefnunni Arctic Frontier sem hefjast átti um helgina í Noregi. Hann mun þess í stað einbeita sér að máli grænlensku sjómannanna sem handteknir hafa verið í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur.
Þetta kemur fram á grænlenska fréttamiðlinum KNR. Þar er greint frá því að nítján af 28 skipverjum Polar Nanoq séu grænlenskir. Margir áhyggjufullir aðstandendur þeirra hafi því leitað til utanríkisráðuneytis Grænlands til þess að fá aðstoð og upplýsingar um framvindu mála.
Samkvæmt upplýsingum KNR mun utanríkisráðuneyti Grænlands starfa náið með íslenskum yfirvöldum, danska sendiráðinu á Íslandi og Polar Seafood, útgerð Polar Nanoq, vegna málsins.
Í það minnsta tveir grænlenskir sjómenn eru nú í gæsluvarðhaldi, grunaðir um aðild að hvarfi Birnu. Tveir skipverjar til viðbótar voru einnig handteknir en öðrum þeirra hefur verið sleppt úr haldi. Hinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær grunaður um smygl á 20 kílóum af hassi sem fannst um borð í Polar Nanoq.
Í frétt KNR segir að þeir sem hafi verið handteknir, sem og vitni í málinu, eigi rétt á því að fá aðstoð frá sendiráði sínu, í þessu tilviki danska sendiráðinu í Reykjavík. Áhöfn grænlenska togarans Polar Nanoq er nú stödd á hóteli í Reykjavík þar sem henni hefur verið boðin áfallahjálp frá Rauða krossi Íslands og aðstoð túlks.
Þá hefur grænlenska utanríkisráðuneytið komið upp upplýsinganúmeri þar sem aðstandendur áhafnar Polar Nanoq geta komist í samband við utanríkisráðuneytið til að fá upplýsingar um framvindu mála.
Utanríkisráðherra Grænlands hættir við Noregsför vegna hvarfs Birnu

Tengdar fréttir

Þungt yfir áhöfn Polar Nanoq sem hefur verið boðin áfallahjálp
Dvelja á hóteli í Reykjavík en útgerðarstjóri vonast til að skipið geti haldið á veiðar sem fyrst.

Grunaðir um manndráp
Tveir skipverjar á Polar Nanoq voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli 211.gr almennra hegningarlaga sem fjallar um manndráp.

Þriðji skipverjinn í gæsluvarðhald grunaður um smygl á 20 kílóum af hassi
Maðurinn verður í einangrun til mánudags.