Ekki liggur fyrir játning í manndrápsmálinu í Hafnarfirði en sönnunargögn í því hrannast upp. Hæstiréttur staðfesti í dag framlengt gæsluvarðhald í tvær vikur yfir manninum sem talinn er bera ábyrgð á dauða Birnu Brjánsdóttur.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar sést maðurinn, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, þrífa rauða Kia Rio-bílinn að innan og utan á bryggjunni við Polar Nanoq. Þetta mun sjást á upptökum úr eftirlitsmyndavélum sem eru á meðal gagna málsins.
Þá sést maðurinn einnig á upptökum í eftirlitsmyndavélum í verslun Krónunnar við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði á laugardagsmorgninum örlagaríka þar sem hann er að kaupa hreinsiefni og annan búnað til þrifa. Ekki liggur fyrir játning í málinu en sönnunargögn í því hrannast upp.
Meðal gagna málsins eru blóðsýni úr bílnum sem staðfest er að eru úr Birnu. Þá hefur lögreglan kortlagt ferðir bílsins og hefur niðurstöður úr krufningu.
Ekki er heimilt að úrskurða sakborning til að sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum með útgáfu ákæru eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Þetta er þessi hámarkstímarammi sem að lögreglan vinnur eftir. Hæstiréttur staðfesti í dag framlengt gæsluvarðhald í málinu í tvær vikur frá 2. febrúar eða til 16. febrúar næstkomandi.
Að sögn Gríms Grímssonar leggur lögreglan höfuðáherslu á að hraða rannsókn málsins þannig að héraðssóknari hafi tíma til að fara yfir gögn þess og taka afstöðu til ákæru í málinu.
Sést þrífa rauða Kia Rio-bílinn að innan og utan á bryggjunni
Tengdar fréttir

Hæstiréttur staðfestir áframhaldandi gæsluvarðhald
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum sem grunaður er um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana.

„Við teljum okkur vera búin að yfirheyra hann nokkuð stíft“
Maðurinn var síðast yfirheyrður á fimmtudag en sama dag var hann úrskurðaður í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald og einangrun.

Telja dánarorsök Birnu vera drukknun
Lögreglan telur að dánarorsök Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin við Selvogsvita þann 22. janúar síðastliðinn, hafi verið drukknun.