Auðlindaskattar Þorbjörn Þórðarson skrifar 23. mars 2017 00:00 Ef Alþingi tæki þá ákvörðun með settum lögum að fella niður veiðigjald í sjávarútvegi og láta tekjuskatt útgerðarfyrirtækja duga er ekki fremur líklegt að slík löggjöf myndi falla í fremur grýttan jarðveg hjá almenningi? Slíkt væri í reynd óhugsandi og menn hafa mætt niður á Austurvöll með potta og pönnur af minna tilefni. Enda er almenn samstaða um það í þjóðfélaginu að fyrirtæki sem nota auðlindir í eigu ríkisins greiði sérstaklega fyrir þau afnot. Samt hefur það verið látið átölulaust í mörg ár að aðrar atvinnugreinar sem skapa verðmæti með nýtingu náttúruauðlinda greiði ekki sérstakt gjald fyrir afnot af þessum auðlindum. Til dæmis ferðaþjónustan. Ferðaþjónustan er í dag sú atvinnugrein sem skapar mestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Ferðaþjónustan á líka stærsta hlutdeild í vergri landsframleiðslu Íslands og er löngu komin fram úr sjávarútvegi ef eingöngu er horft til veiða og vinnslu. Ferðaþjónustan skapar verðmæti með nýtingu náttúruauðlinda og um hana eiga að gilda sömu lögmál og um aðrar atvinnugreinar sem byggja á auðlindanýtingu. Stjórnvöld hafa haldið illa á málefnum ferðaþjónustunnar í mörg ár. Á síðasta kjörtímabili mistókst að ná sátt um gjaldtöku í ferðaþjónustu með svökölluðum náttúrupassa. Það væri bæði ósanngjarnt og ómálefnalegt að klína þeim mistökum eingöngu á þann ráðherra sem fór með málaflokkinn á síðasta kjörtímabili. Það er hins vegar þyngra en tárum taki að ríkissjóður hafi farið á mis við háar fjárhæðir sem hefðu nýst við innviðuppbyggingu í ferðaþjónustu af því að skattlagning í ferðaþjónustu dagaði uppi í skugga pólitískra átaka. Þá voru kjörnir fulltrúar beygðir í duftið af hagsmunaöflum í opinberri umræðu um málið. Úrræða- og aðgerðaleysið skrifast líka að einhverju leyti á áhugaleysi þingmanna. Greint hefur verið því að ríkisstjórnin sé núna að skoða leiðir til að skattleggja ferðaþjónustuna. Á meðal þess sem er til skoðunar er leyfisgjald sem rútufyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki, sem selja skipulagðar ferðir, munu þurfa að greiða. Hópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins vinnur að nánari útfærslu á þessu samkvæmt frétt sem birtist á Vísi í gær. Í fjárlögum þessa árs er síðan gert ráð fyrir að gistináttagjald þrefaldist, hækki úr 100 krónum í 300 krónur, frá og með 1. september næstkomandi. Reiknað er með að breytingin skili 300 milljónum króna í ríkissjóð á þessu ári og 1,2 milljörðum króna á árinu 2018. Gistináttagjald er mun sanngjarnari leið til skattlagningar í ferðaþjónustu en til dæmis komugjöld á farseðla í ljósi þess að margir sem hingað koma eru hér í stuttu stoppi eða nota Keflavík til millilendingar á leiðinni annað. Í raun er 300 krónur í gistináttagjald mjög hófleg skattlagning og ríkisvaldið hefði átt að hækka þetta gjald mun meira og fyrr. Hækkun gistináttagjalds og boðuð skattlagning í ferðaþjónustu eru löngu tímabærar aðgerðir. Þá er mikilvægt að kjörnir fulltrúar standi í lappirnar þegar skattlagning á ferðaþjónustufyrirtæki kemur til kasta löggjafans.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hver er munurinn á Viðreisn og Samfylkingu? Soffía Svanhvít Árnadóttir Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Annarra manna peningar eru peningar okkar allra Davíð Þór Jónsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Ég á ‘etta, ég má ‘etta Jón Ármann Steinsson Skoðun
Ef Alþingi tæki þá ákvörðun með settum lögum að fella niður veiðigjald í sjávarútvegi og láta tekjuskatt útgerðarfyrirtækja duga er ekki fremur líklegt að slík löggjöf myndi falla í fremur grýttan jarðveg hjá almenningi? Slíkt væri í reynd óhugsandi og menn hafa mætt niður á Austurvöll með potta og pönnur af minna tilefni. Enda er almenn samstaða um það í þjóðfélaginu að fyrirtæki sem nota auðlindir í eigu ríkisins greiði sérstaklega fyrir þau afnot. Samt hefur það verið látið átölulaust í mörg ár að aðrar atvinnugreinar sem skapa verðmæti með nýtingu náttúruauðlinda greiði ekki sérstakt gjald fyrir afnot af þessum auðlindum. Til dæmis ferðaþjónustan. Ferðaþjónustan er í dag sú atvinnugrein sem skapar mestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Ferðaþjónustan á líka stærsta hlutdeild í vergri landsframleiðslu Íslands og er löngu komin fram úr sjávarútvegi ef eingöngu er horft til veiða og vinnslu. Ferðaþjónustan skapar verðmæti með nýtingu náttúruauðlinda og um hana eiga að gilda sömu lögmál og um aðrar atvinnugreinar sem byggja á auðlindanýtingu. Stjórnvöld hafa haldið illa á málefnum ferðaþjónustunnar í mörg ár. Á síðasta kjörtímabili mistókst að ná sátt um gjaldtöku í ferðaþjónustu með svökölluðum náttúrupassa. Það væri bæði ósanngjarnt og ómálefnalegt að klína þeim mistökum eingöngu á þann ráðherra sem fór með málaflokkinn á síðasta kjörtímabili. Það er hins vegar þyngra en tárum taki að ríkissjóður hafi farið á mis við háar fjárhæðir sem hefðu nýst við innviðuppbyggingu í ferðaþjónustu af því að skattlagning í ferðaþjónustu dagaði uppi í skugga pólitískra átaka. Þá voru kjörnir fulltrúar beygðir í duftið af hagsmunaöflum í opinberri umræðu um málið. Úrræða- og aðgerðaleysið skrifast líka að einhverju leyti á áhugaleysi þingmanna. Greint hefur verið því að ríkisstjórnin sé núna að skoða leiðir til að skattleggja ferðaþjónustuna. Á meðal þess sem er til skoðunar er leyfisgjald sem rútufyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki, sem selja skipulagðar ferðir, munu þurfa að greiða. Hópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins vinnur að nánari útfærslu á þessu samkvæmt frétt sem birtist á Vísi í gær. Í fjárlögum þessa árs er síðan gert ráð fyrir að gistináttagjald þrefaldist, hækki úr 100 krónum í 300 krónur, frá og með 1. september næstkomandi. Reiknað er með að breytingin skili 300 milljónum króna í ríkissjóð á þessu ári og 1,2 milljörðum króna á árinu 2018. Gistináttagjald er mun sanngjarnari leið til skattlagningar í ferðaþjónustu en til dæmis komugjöld á farseðla í ljósi þess að margir sem hingað koma eru hér í stuttu stoppi eða nota Keflavík til millilendingar á leiðinni annað. Í raun er 300 krónur í gistináttagjald mjög hófleg skattlagning og ríkisvaldið hefði átt að hækka þetta gjald mun meira og fyrr. Hækkun gistináttagjalds og boðuð skattlagning í ferðaþjónustu eru löngu tímabærar aðgerðir. Þá er mikilvægt að kjörnir fulltrúar standi í lappirnar þegar skattlagning á ferðaþjónustufyrirtæki kemur til kasta löggjafans.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.