LC 500h verður aðeins forsýndur þennan eina dag og því er þetta einstakt tækifæri til að sjá þetta nýja flaggskip sportbíladeildar Lexus. Hönnun bílsins er glæsileg og ber verkfræðingum, hönnuðum og handverksmönnum Lexus gott vitni. Leitast er við að sameina einstaka akstursupplifun sportbíls og þau þægindi sem lúxusbílar Lexus eru þekktastir fyrir.
Bíllinn sem sýndur verður á laugardag er með 3.5 lítra V6 vél og Hybridkerfi sem samanlagt skila 359 hestöflum og þannig búinn er hann 4,7 sekúndur að ná 100 km hraða. Í búnaði Hybridútfærslunnar hefur nýr tvöfaldur 10 hraða gírkassi vakið mikla athygli en þetta er fyrsti bíllinn frá Lexus sem búinn er þessum gírkassa. LC 500 er einnig fáanlegur með 477 hestafla V8 vél sem kemur honum í 100 km hraða á 4,4 sekúndum.
