„Ég fann að þolinmæði hans var á þrotum. Þegar við ræddum um ný lyf, þá sagði læknirinn að það væri ekki búið að innleiða ný lyf og það væri ekki búið að gera ráð fyrir fjármagni á þessu ári til nýrra lyfja. Við erum langt á eftir hinum Norðurlöndunum þegar kemur að þessu,“ bætir Linda Hlín við. „Starfsfólk LSH er auðvitað fyrsta flokks en lyfin ekki. Ég einhvern veginn fylltist vonleysi og reiði.“

Örvar Gunnarsson, krabbameinslæknir á LSH, segir þolinmæði krabbameinslækna á þrotum og staðfestir að til séu lyf sem hann væri til í að nota í meðferðir en geti það ekki vegna fjárskorts. „Ég held að flestir krabbameinslæknar séu þeirrar skoðunar. Við erum langt á eftir Norðurlöndunum og sjúklingar geta ekki beðið eftir þessu endalaust. Þolinmæðin er á þrotum,“ segir Örvar.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi um miðjan febrúar að tryggja upptöku nýrra lyfja á þessu ári. Hins vegar hefur lítið gerst og fjármunum hefur ekki enn verið varið til málaflokksins þrátt fyrir gefið loforð.

Ákvörðun ríkisstjórnar var að fela mér og fjármálaráðherra að fara yfir málið. Það var fyrirséð að mikil vöntun á fjármagni væri í málaflokknum miðað við fjárlög sem samþykkt voru í desember.Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir málið í farvegi innan ráðuneytis velferðarmála, fjármála- og efnahagsráðuneytis og hjá lyfjagreiðslunefnd. „Ákvörðun ríkisstjórnar var að fela mér og fjármálaráðherra að fara yfir málið. Það var fyrirséð að mikil vöntun á fjármagni væri í málaflokknum miðað við fjárlög sem samþykkt voru í desember,“ segir Óttarr. „Við höfum verið að vinna í því og verið í samtali við formann lyfjagreiðslunefndar að skoða stöðuna og sjá hvernig við getum tryggt innleiðingu nýrra lyfja. Síðan erum við í samráði við fjármálaráðuneytið að meta fjármálahlið málsins.“
Svandís Svavarsdóttir, þingkona VG, hefur spurst fyrir um málið í skriflegri fyrirspurn til ráðherra. Hún brýnir hann til góðra verka. „Heilbrigðisráðherra verður að hafa bein í nefinu til að taka á þessu vandamáli sem fyrst. Það skiptir miklu máli að menn fari eftir því sem sagt var fyrir kosningar, að heilbrigðismál verði sett í forgang.“