Menning

Senegalirnir urðu spinnegal

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Áslaug Snorradóttir með mandarínur á augum, hálsfesti eftir Huldu Ágústsdóttur og tískulitinn í Senegal í hárinu.
Áslaug Snorradóttir með mandarínur á augum, hálsfesti eftir Huldu Ágústsdóttur og tískulitinn í Senegal í hárinu. MYND/ÁSLAUG SNORRADÓTTIR
Fagurkerinn, ljósmyndarinn, matargúrúinn og heimskonan Áslaug Snorradóttir verður með freistandi pinkla og pakka frá seiðandi fagra Senegal á pop up-markaði fyrir munaðarleysingja í Mengi á laugardag.

„Við Hulda höfum alltaf verið hrifnar af senegalskri tónlist, eftir að hafa kynnst henni hjá Árna Matt, tónlistarsnillingi á Mogganum fyrir akkúrat þrjátíu árum,“ segir Áslaug sem fór til Senegal með Huldu Ágústsdóttur skartgripahönnuði. 

„Við höfum árvisst farið til Ítalíu en ákváðum að breyta til á fimmtugsárinu mínu og skella okkur til Senegal. Ég hef lítið kynnst Afríku en sá heimildarmynd um hönnun í höfuðborginni Dakar og kolféll fyrir því sem fyrir augu bar.“

Litrík Senegal-klæði sem gleðja og kæta bæði augu og anda.MYND/ÁSLAUG SNORRADÓTTIR
Þær Áslaug og Hulda voru þrjár vikur á ferðalaginu með stuttu stoppi í París. 

„Íbúar Senegal eru algjört æði; ljúfir, glaðir og veisla út í eitt fyrir augun, svo ég tali nú ekki um eyrun. Bílstjórar eru með allt í botni þannig að það er stuð að sitja í bíl. Við dvöldum nokkra daga í medínunni í Saly en þar sofnuðum við við glaðan söng og vöknuðum við hann aftur að klukkan fimm að morgni. Söngvararnir voru glöðu börnin á munaðarleysingjahælinu við hliðina og ein af ástæðum þess að ég slæ upp pop up-markaði að ég vil safna í sjóð til þeirra,“ útskýrir Áslaug.

Tinni og Kolbeinn kafteinn eru dæmi um dásamlega falleg, handgerð leikföng frá Senegal og sóma sér vel í fellihýsunum í sumar.MYND/ÁSLAUG SNORRADÓTTIR
Hin ástæðan er Sigríður Sigurjónsdóttir í Gallerí Spark og safnstjóri hjá Hönnunarsafninu. Hún stakk upp á pop up-markaði við Áslaugu fyrir margt löngu og minnti hana á hugmyndina áður en hún fór út.

„Ég elska dót en gæti aldrei rekið búð. Eins og í Perú þar sem Maríukertin voru svo falleg en ég rolaðist bara til að kaupa nokkur sem seldust strax. Ég ákvað því núna að fylla nokkrar risa arabatöskur enda lauflétt,“ segir Áslaug kát og tilefni kátínunnar mýmörg.

„Um þessar mundir er ég líka að fagna tíu ára afmæli bókarinnar Iceland Picnic. Við Sigrún Sigvaldadóttir hönnuður létum prenta brjálæðislegt magn af bókinni á sínum tíma, og sem betur fer því annars væri ég búin að gleyma henni. Bókin vekur sífellt meiri athygli og var nýverið margsinnis vitnað í hana í stórri ferðagrein Condé Nast-tímaritsins. Þá eru lautarferðir beinlínis í tísku, eins og sást í Merci, uppáhaldsbúðinni minni í París. Þess vegna blanda ég þessu saman ásamt góssi frá Balí sem ég keypti í janúar, en það var einmitt líka eitt af trendum Parísarborgar nú.“

Litríkar og einstakar hálsfestar Huldu Ágústsdóttur skartgripahönnuðar slógu í gegn og klæddu senegalskar fegurðardísir ákaflega vel.MYND/ÁSLAUG SNORRADÓTTIR
Á ferðum sínum um Senegal báru Áslaug og Hulda litríka og einstaka skartgripi Huldu og vöktu verðskuldaða athygli.

„Senegalirnir urðu spinnegal þegar þeir sáu festarnar og svo dressuðum við okkur hressilega upp. Nú á ég eitt mynstur fyrir hvern dag vikunnar. Guli liturinn kom sterkur inn í sólgulu Senegal en ég var áður lítt gefin fyrir gult. Nú er ég meira að segja komin með gult hár, sem var absólút ekki meiningin,“ segir Áslaug og hlær.

Næsta ferð Áslaugar út fyrir landsteinana verður með Maríu Rán Guðjónsdóttir útgefanda til Malí.

„Við María erum gott sett sem fer í lautarferðir með ferðamenn í sumar. Nú er uppáhaldstíminn minn, þegar gróðurinn vaknar og sumarið er fram undan. Vorum síðast í rokferð um Reykjanesið þar sem allir skemmtu sér vel og grillað var entrécote með truffluðu trufflu­sinnepi úr Matarbúrinu.“

Á pop up-markaðinum verður hægt að eignast dýrindis varning frá fagra Senegal, eins og handofnar draumakörfur sem láta draumana rætast.MYND/ÁSLAUG SNORRADÓTTIR
Á markaðinum verða meðal annars til sölu körfur, bakkar, sloppar og farartæki frá Senegal.

„Ég ætla að skella í eina stóra poulet yassa sem Senegalar borða nánast í öll mál og ég eldaði margoft á dag fyrir okkur Huldu. Það má segja létt sjokk að koma heim eftir dvöl í landi sem er með jafn geggjað hráefni. Og af því að samkoman er í Mengi smellpassar að blasta fjörugri Senegal-tónlist!“

Pop up-markaðurinn „Senegal picnic með millilendingu í París“ verður í Mengi, Óðinsgötu 2 í Reykjavík frá klukkan 13 til 15 á laugardag, 27. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.