Kótelettan BBQ Festival, Golfklúbburinn Tuddi og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna taka aftur höndum saman og halda í þriðja skipti styrktarsölu á grilluðum kótelettum, svokölluðum styrktarlettum, um næstu helgi. Salan fer fram á dagskemmtun Kótelettunnar BBQ Festival á laugardaginn.
„Þetta er í áttunda skiptið sem við skipuleggjum og setjum upp þessa hátíð svo hópurinn sem stendur að baki verkefninu hefur öðlast smá reynslu ofan á þá sem fyrir var þegar við hófum þetta í fyrsta skipti,“ segir Einar Björnsson, aðalskipuleggjandi Kótelettunnar BBQ Festival.
Markmiðið er að selja 2.000 kótelettur.
„En sumir stefna miklu hærra en það. Það góða fólk sem mætir á Kótelettuna hefur verið mjög viljugt að styrkja gott málefni og ekki er verra þegar það fær alvöru íslenska afurð í staðinn.“

Spurður út í hver galdurinn á bak við góða kótelettu sé segir Einar:
„Ég hef svo sem mínar leiðir þegar ég skelli þeim á grillið, en ég held að það sé ráð fyrir fólk að mæta á laugardaginn í Miðbæjargarðinn á Selfossi því þar verður fólk sem veit hvernig á að búa til framúrskarandi kótelettur,“ segir Einar að lokum og hvetur alla til að mæta á Kótelettuna og gera sér glaðan dag.