Tengsl Andreasar Dreier við Ísland liggja einmitt í gegnum Andrés Þór gítarleikara en hann segir að leiðir þeirra félaga hafi einmitt fyrst legið saman þegar þeir voru báðir við nám í Hollandi. „Við náðum strax vel saman þarna í Hollandi og ég spilaði inn á fyrstu plötuna hans með honum og svo setti ég saman norrænan kvartett sem hann spilaði í. Við spiluðum hér á Jazzhátíð, í Noregi og víðar. Andreas gerði svo plötu á síðasta ári til heiðurs sænsku söngkonunni Monicu Zetterlund og ég spilaði einnig inn á þá plötu. Þetta er tónlistin sem við erum að fara að flytja í garðinum á Jómfrúnni á laugardaginn þannig að það verður virkilega skandinavísk stemning.“

Andrés Þór segir að það sé alltaf eitthvað um það að íslenskir djasstónlistarmenn séu að spila á Norðurlöndunum og að sjálfur hafi hann helst spilað í Noregi af og til. „Þetta snýst nú helst um tengingar og samstarfsmenn.“ En er þetta frábrugðið því að spila hérna heima? „Það er þá helst bara að senurnar eru stærri og svo er fjölbreytnin meiri en það er ekkert stórkostlega meira. Helst að það sé meira af góðum djassklúbbum og aðgengið að tónlistinni því gott.“ Andrés Þór var staddur á Spáni þegar náðist í hann en hann segir þó léttur að það þurfi þó enginn að hafa áhyggjur af því að ekki gefist tími til æfinga. „Ég kann þetta. Er reyndar að koma á föstudaginn og við æfum á föstudagskvöld og laugardagsmorgun, auk þess að hafa spilað þetta oft saman áður og undirbúningurinn hefur verið heilmikill. Þannig að við verðum alveg klár í slaginn þegar þar að kemur.“ Tónleikarnir fara fram á Jómfrúartorginu. Þeir hefjast kl. 15 og standa til kl. 17. Aðgangur er ókeypis.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. júní.