Tónlistarhúsið Harpa í Reykjavík verður ekki miðpunktur Iceland Airwaves eins og verið hefur undanfarin ár heldur munu nýir tónleikastaðir koma inn með breyttu fyrirkomulagi hátíðarinnar. Þannig verður off venue-stöðum fækkað og teknir inn þrír tónleikastaðir á Akureyri en með breyttu fyrirkomulagi fækkar miðum í umferð úr 9000 í 7500. Hátíðin fer fram þann 1. til 5. nóvember næstkomandi.
„Tekin hefur verið ákvörðun um að leita aftur til upphafsins og stokka því nokkuð upp í skipulagningu hátíðarinnar. Helsta breytingin er að hátíðin mun ekki nota Hörpuna sem miðpunkt dagskrárinnar. Airwaves mun þó ekki alveg yfirgefa Hörpu því í Eldborgarsalnum verða haldnir þrennir stórir tónleikar með Ásgeiri og Fleet Foxes,“ segir í tilkynningu Iceland Airwaves en dagskráin mun fara fram á eftirfarandi tónleikastöðum í Reykjavík:
Húrra
Gaukurinn
Hressó
Iðnó
Gamla bíó
Þjóðleikhúsið (stóra sviðið)
Þjóðleikhúskjallarinn
Eldborg í Hörpu
Fríkirkjan
Hard Rock Café
Listasafn Íslands
Valshöllin
Þá er Akureyri bætt inn í dagskrána og munu tónleikastaðirnir þar vera Græni hatturinn, Hof og Sjallinn. Boðið verður upp á beint flug milli Keflavíkur og Akureyrar með Air Iceland Connect.
