Eliza var á stuðningsmannavæðinu í Rotterdam í dag ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og tveimur börnum af fjórum. Þar söfnuðust Íslendingar saman til að hita upp fyrir leikinn gegn Austurríki á EM í Hollandi.
Vísir var í beinni útsendingu frá Rotterdam og ræddi við forsetahjónin og má sjá upptöku frá útsendingunni neðst í fréttinni. Viðtalið við Elizu og Guðna hefst eftir tæplega 17 mínútur.

Eliza útskýrði ástæðu þess að þau ákváðu að verja sumarfríinu í Hollandi.
„Guðna finnst alltaf svo gaman að koma og fylgjast með íþróttum. Hollandi er svo fjölskylduvænn staður. Það passaði svo vel að vera hérna í nokkrar vikur með börnin. Þetta er búið að vera yndislegt.“
Þau Guðni Eliza segir einstakt að fá að upplifa þann stuðning sem hefur verið í stúkunni á leikjum Íslands hingað til.
„Pabbi minn er hér í heimsókn líka og bróðir minn. Þeir voru aðeins að upplifa það líka. En þetta er mjög einstakt, svo margir frá Íslandi hér og allir að hrósa stelpunum okkar. Allir standa og klappa fyrir stelpunum okkar þegar leikirnir eru búnir, hvort sem við vinnum eða ekki. Það skiptir ekki máli. Það taka allir þátt og eru stoltir,“ sagði Eliza í blíðunni í Rotterdam.

Guðni tók undir orð konu sinnar.
„Það er gaman að sjá hvað eru margir hérna. Allir mjög jákvæðir og stoltir af sínum stelpum. Nú bara vonumst við eftir góðum úrslitin,“ sagði Guðni. Um leið gengu eldhressir stuðningsmenn Austurríkis framhjá en þeir voru í miklum minnihluta á stuðningsmannasvæðinu í dag.
„Ég held við getum talið þá nánast á fingrum annarrar handar, með fullri virðingu fyrir Austurríkismönnum,“ sagði Guðni.
„Það sem er skemmtilegt hérna er að við höfum ekki þurft að grípa til gömlu góðu höfðatölunnar einu sinni til að benda á það hvað við höfum stutt vel við bakið á landsliðinu. Það er gaman að geta átt þetta. Gengi í íþróttum segir ekki endilega allt um gæði samfélags en leyfum okkur þó að njóta að eiga flott íþróttafólk sem ber hróður landsins víða. Það er bara flott. Við eigum að fagna því.“

Það hefur vakið athygli á Íslandi og víðar að Guðni og Eliza sitja á meðal almennings á leikjum Íslands, eru klædd í landsliðsbúninginn. Guðni númer 20 og Eliza númer 17. Hann var spurður hvort enginn tæki því illa að þau væru ekki í VIP-stúkunni svokölluðu heldur meðal almennings.
„Ég hef verið að ítreka það að það eru aðrir sem koma hingað fyrir Íslands hönd og hafa ákveðnum skyldum að gegna og erum þá á sínum stað á þessum ágæta velli. Við erum bara hérna í fríi, erum með krakkana líka og viljum að þau fái að upplifa þetta eins og annað fólk,“ sagði Guðni.
„Auðvitað er það þannig að forráðamenn knattspyrnusambands, ráðherrar, ráðamenn og fleiri þurfa að gegna sínum skyldum. Og það koma leikir þar sem ég verð á mínum stað í stúku og heilsa upp á ráðamenn ríkja. Þetta er ekkert annað en það að mig langar til að njóta leiksins.“

Guðni segist ætla að taka vel undir í leiknum á eftir eins og hinum tveimur.
„Já, ég ætla að gera það og taka líka víkingaklappið,“ sagði Guðni en viðurkenndi að hann væri aðeins stressaður fyrir því. Hann ætti þó ekki að þurfa þess enda öllu vanur, bæði tekið víkingaklappið með nemendum í Kvennaskólanum og grænlenskum börnum á Bessastöðum.
„Það er smá Magnús Magnús Magnússon í mér,“ sagði Guðni og vísaði til karakters úr áramótaskaupi sjónvarpsins. Magnús Magnús Magnússon getur ekki tímasett klöppin sín rétt í víkingaklappinu.
Eliza heyrði í manni sínum og hafði smá við orð hans að bæta.
„Ég verð að bæta því við að það er svolítið mikill Magnús Magnús Magnússon í honum.“
Vísir var í beinni útsendingu frá Rotterdam og ræddi við forsetahjónin og má sjá upptökuna hér að neðan. Spjallið við Elizu og Guðna hefst eftir tæplega 17 mínútur.