Þetta er í annað sinn sem hátíðin verður haldin, en í fyrra mættu yfir 3.000 manns á hana. Þetta væri nú svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þessir piltar sem halda hátíðina eru allir fæddir árið 2000, nema Snorri sem fæddist ári síðar. Þeir hafa ekki fengið neina aðstoð við þetta – nema smávegis hjálp frá Agli Ástráðssyni, bróður Snorra, en hann er umboðsmaður stórrar sneiðar íslenska rappbransans.

Í fyrra komu til að mynda fram GKR, Aron Can og Gísli Pálmi og hátíðin fór fram á horni Vatnsstígs og Hverfisgötu.
„Við verðum á Ingólfstorgi í ár. Við munum tilkynna um hverjir spila í partíi í Húrra Reykjavík á miðvikudaginn þar sem verða plötusnúðar og við sýnum myndband sem við erum búnir að gera þar sem allir listamennirnir verða tilkynntir – en þetta verður bara stærra núna en í fyrra. Ég fékk til dæmis vin minn sem vinnur í þessum bransa til að hanna svið fyrir mig, hanna ljósakerfin og hvernig við setjum þetta upp. Svo erum við á fullu að semja við styrktaraðila og svona,“ segir Snorri.
Liggur ekki beinast við að þið gerið skemmtanabransann að ævistarfi?
„Ég býst við því, ég hef allavega enga löngun til að vinna frá níu til fimm. Ég held að þetta sé bara málið.“