Dæturnar og Ragga Holm buðu vinum og vandamönnum að lyfta með sér kampavíni í bjórglösum á Prikinu í gærkvöldi, til þess að fagna útkomu myndbandsins.
Húsið troðfylltist á þessu heita sumarkvöldi og mikil stemmning var á Prikinu.
„Já, það var alveg troðið, ég hef sjaldan séð jafn marga brosa á Prikinu á sama tíma eins og í gær. Ætli það hafi ekki verið fría kampavínið sem togaði í hláturtaumana hjá mannskapnum,“ segir leikstjórinn Kolfinna Nikulásdóttir en myndbandið rýnir á listrænan og frumlegan hátt inn í litríkt líf dætranna, sem ferðast saman um allan heim til þess að koma fram og rappa.

„Þetta er reyndar fyrsta myndband sem ég leikstýri en ekki það síðasta. Mér fannst mjög gaman að vera þarna megin við myndavélina og leikstjórn er klárlega eitthvað sem ég ætla að leggja fyrir mig,“ bætir Kolfinna við, en hún er nýútskrifuð af Sviðshöfundabraut í LHÍ og ferill hennar skýst heldur betur hratt upp á stjörnuhimininn, en hún hefur nú tekið að sér annað leikstjórnarverkefnið sitt á vegum Borgarleikhússins.
Þó ætlar hún fyrst að leikstýra MR í allan sannleikann, ásamt Reykjavíkurdótturinni og sjónvarpskonunni Steineyju Skúladóttur.
Saman ætla þær að setja upp Forðist Okkur eftir Hugleik Dagsson. Kolfinna er þessa dagana að leikstýra nýju íslensku útvarpsleikriti á RÚV sem heitir Fákafen og er eftir verðlaunahafann Kristínu Eiríksdóttur. Segja má að Kolfinna sé rísandi stjarna í leikhús- og kvikmyndabransanum. „Já, Baltasar Kormákur má bara fara að passa sig,“ endar Kolfinna á að segja glottandi.
Hér að neðan má sjá myndbandið.
Leikstjóri: Kolfinna Nikulásdóttir
Framleiðandi: Þórunn Guðjónsdóttir
Lag: RVKDTR ft. Ragga Holm
Pródúser: BLCKPRTY
Rapparar: MC Blær, svarta - Solla, Katrín Helga og Ragga Holm.
Myndataka: Arnar Steinn Friðbjarnarson
Stílisti: Brynja Skjaldar
Klipping: Kolfinna Nikulásdóttir og Thorbjörn Einar Guðmundsson
Ljós: Oddur Elíasson