Liverpool og Sevilla skildu jöfn, 2-2, á Anfield í E-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Sevilla fékk sannkallaða draumabyrjun þegar Wissam Ben Yedder kom liðinu yfir strax á 5. mínútu.
Eftir markið tók Liverpool völdin og þjarmaði að Sevilla. Pressan bar árangur á 21. mínútu þegar Roberto Firmino skoraði með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Albertos Moreno.
Á 37. mínútu kom Mohamed Salah Liverpool í 2-1. Fimm mínútum síðar fékk Firmino gullið tækifæri til að skora þriðja mark Liverpool en skaut í stöngina úr vítaspyrnu.
Staðan var 2-1 í hálfleik og allt fram á 72. mínútu þegar Joaquín Correa jafnaði metin.
Joe Gomez, hægri bakvörður Liverpool, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma. Það breytti þó engu um úrslitin. Lokatölur 2-2.