Hrafnhildur Lúthersdóttir og Aron Örn Stefánsson voru sigurvegarar Íslandmeistaramótsins í 25 metra laug sem fram fór í Laugardalnum um helgina. Arnar Björnsson ræddi við parið í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hrafnhildur vann til fimm gullverðlauna í einstaklingsgreinum ásamt því að setja Íslandsmet í 50m bringusundi.
Aron Örn vann sér einnig til fimm Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. Hann náði einnig lágmarki á Evrópumeistaramótið í 25 metra laug í 100m skriðsundi.
Hrafnhildur og Aron Örn hafa verið par í ár og sögðu að það hjálpaði þeim í sundinu.
„Það gengur mjög vel, og ég held það hjálpi okkur að verða betri. Að ýta hvort öðru áfram og styðja við hvort annað,“ sagði Hrafnhidur við Arnar, sem þurfti þó sönnun á sambandi þeirra svo Aron smellti einum kossi á Hrafnhildi.
Viðtal Arnars við þetta glæsilega sundpar má sjá í spilaranum hér að ofan.
