Í fjárlagafrumvarpinu segir að fjárhæðin verði notuð í að „[b]yggja upp innviði íslenskrar máltækni í opnum aðgangi þannig að íslenska verði fullgild í stafrænum heimi í samræmi við stjórnarsáttmála.“ Verður það gert á grundvelli nýrrar aðgerðaráætlunar sem kynnt var í sumar. Skýrslan var afrakstur starfshóps sem skilaði inn metnaðarfullum tillögum sem miða að því að gera íslenskuna fullgilda í stafrænum heimi. Eins og Vísir hefur fjallað um þarf töluvert að gerast til þess að slíkt verði að veruleika.
Alls er gert ráð fyrir því að 2,3 milljarða þurfi á næstu fimm árum vegna verkáætlunnar og fagnar Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og einn helsti talsmaður þess að lagt verði áhersla á þróun máltækni, því að stjórnvöld stígi stórt skref í því að láta framkvæma verkáætlunina.

Vísir hefur á undanförnum árum fjallað ítarlega um þróun í íslenskri máltækni og þá hættu sem ýmsir telja að steðji að íslensku eftir því sem talandi tæki, á borð við snjallsíma, verða fyrirferðarmeiri í lífi okkar. Í rannsókn á vegum sextíu rannsóknarsetra í 34 löndum kom til að mynda fram að flest Evrópumál eigi á hættu „stafrænan dauða,“ þ.e. að lifa ekki áfram á netinu eða í snjalltækjum þannig að notkunarsvið þeirra yrði þrengt verulega. Íslenska var talin í næstmestri hættu.
Verkáætlunin miðar að því að að koma á fót hagnýtum verkefnum í máltækni, á borð við þannig að fjótlega verði til talgervill, talgreinir, sjálfvirk þýðingarvél og leiðréttingarforrit fyrir íslensku svo dæmi séu tekin.