Ellefu af þeim tólf sem fluttir voru á sjúkrahús eftir tvo eldsvoða á höfuðborgarsvæðinu hafa verið útskrifaðir af Landspítalanum. Einn er enn á gjörgæslu en sá er húsráðandi íbúðar þar sem eldur kom upp í Bláhömrum í Grafarvogi aðfaranótt þriðjudags.
Reykkafarar fundu húsráðandann meðvitundarlausan og var hann fluttur í skyndingu á sjúkrahús. Sex aðrir íbúar hússins voru fluttir á slysadeild til rannsókna vegna gruns um reykeitrun, en engan þeirra sakaði alvarlega.
Útkall vegna brunans í Grafarvogi barst slökkviliðinu klukkan hálf þrjú aðfaranótt þriðjudags en tuttugu mínútum síðar var tilkynnt um alelda einbýlishús í Mosfellsbæ. Þar hafði fimm manna fjölskylda sloppið naumlega út í gegn um glugga á síðustu stundu og var fólkið flutt á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar. Þar mun enginn þó hafa meiðst alvarlega og er talið að reykskynjari hafi bjargað því að ekki fór verr. Húsið er hins vegar brunnið til grunna.
