Tvígreindur vandi er þegar einstaklingur á við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða, geðklofa eða geðhvarfasýki, og einnig fíknivanda.
Alls komu 94 konur með tvígreindan vanda á dag- og göngudeild geðdeildar á síðasta ári og 55 lögðust inn á geðdeild. Engin sérhæf búsetuúrræði eru fyrir konur með þennan vanda, sem tekur við eftir meðferð á geðdeild, en slíkt er fyrir hendi fyrir karlmenn.
„Það er auðvitað þyngra en tárum tekur að þurfa að útskrifa fólk inn í ekki neitt og jafnvel á götuna. Suma erum við að útskrifa til fjölskyldu, vina eða til neyslufélaga eftir margra mánaða endurhæfingu - það er óforsvaranlegt,“ segir Gunnlaug Thorlacius, félagsráðgjafi á geðsviði Landspítalans.
Dæmi eru um að konur dvelji fjölda mánaða inni á geðdeild eftir að meðferð lýkur.
„Akkúrat núna eru tvær konur á geðdeildum sem eru í raun færar til útskriftar en við höfum ekki funið úrræði,“ segir Gunnlaug.
Flakka á milli geðdeildar, fangelsis og götunnar
Hluti af þeim konum sem eru þó útskifaðar lendir í þeim vítahring að fara á götuna, brjóta af sér, fara í fangelsi og svo aftur á geðdeild. Til að rjúfa þennan vítahring segir Gunnlaug mikilvægt að koma konunum í skjól fyrst, í varanlegt húsnæði, og svo byggja þær upp með meðferð og endurhæfingu.
Karlar með tvígreindan vanda eru fleiri en konurnar, en Gunnlaug segir konurnar í sérlega viðkvæmri stöðu.
„Tilfinningin segir okkur að þær séu verr settar á götunni en karlar. Í einhverjum tilfellum vitum við að þær eru að fjármagna neysluna með vændi og það er hörmulegt,“ segir hún.

