PSG var betri aðilinn framan af og komst yfir með marki Adrien Rabiot en Cristiano Ronaldo jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.
Franska liðið vildi tvívegis fá vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik, þá sérstaklega þegar að svo virtist sem Sergio Ramos hefði varið boltann með hendinni innan teigs.
„Liðið spilaði vel. Strákarnir sýndu karakter og við áttum skilið betri úrslit en dómarinn var ekki að hjálpa okkur,“ sagði Emery eftir leikinn.
„Vítið sem Real fékk var ódýrt og svo var klárt að Ramos fékk boltann í höndina en við fengum ekkert víti. Dómarinn tók ákvarðanir sem voru slæmar fyrir okkur,“ sagði Unai Emery.