Gagnrýni

Ástarflækjur, loftfimleikar og sítrónur

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Sýningin dansar á milli kabarettsins og trúðaformsins, líkt og allir leikarar verksins séu siðameistarar í þessum heimi ástarinnar sem áhorfendum er boðið inn í, segir í dómnum.
Sýningin dansar á milli kabarettsins og trúðaformsins, líkt og allir leikarar verksins séu siðameistarar í þessum heimi ástarinnar sem áhorfendum er boðið inn í, segir í dómnum.
RaTaTam leikhópurinn frumsýndi sitt annað verk í Tjarnarbíói síðastliðinn föstudag. Fyrir tveimur árum, í sýningunni Suss!, tókst hópurinn á við heimilisofbeldi en nú beinir hann sjónum sínum að ástinni, en í bæði skiptin hefur Charlotte Bøving setið í leikstjórnarstólnum. Sýningin Ahhhh?… er byggð á textum Elísabetar Jökulsdóttir sem spanna tímabilið frá árinu 1989 til árins 2014 og er úr miklu að spila enda höfundur þekktur fyrir að nálgast efni sitt á frumlegan, fyndinn og stundum fáránlegan hátt.

Ástin birtist hér í flóknum og fjölbreyttum myndum enda getur fyrirbærið verið hversdagslegt, epískt, óheilbrigt, náttúrulegt, nauðsynlegt og allt þar á milli. Aftur á móti kemur ástin sem hér er fjallað um frekar úr gagnkynhneigðari áttinni, þó að hinsegin ástin fái eitthvað pláss. En Elísabet smíðar samt sem áður undraverða heima þar sem allt getur gerst líkt og manneskjan öðlist nýja hæfileika með kærleikanum, sem er kannski ekki fjarri lagi.

Charlotte lætur sýninguna dansa á milli kabarettsins og trúðaformsins, líkt og allir leikarar verksins séu siðameistarar í þessum heimi ástarinnar sem áhorfendum er boðið inn í. Slík nálgun hentar textum Elísabetar svo sannarlega vel og er listilega útfærð. Framsetningin er lifandi en mjög skýr og afmörkuð rýmisnotkun leyfir textanum að njóta sín. Sviðshreyfingar Hildar Magnúsdóttur smjúga í gegnum sýninguna, gefa textanum þyngra vægi og færa sýninguna á betra plan.

Leikhópurinn vinnur allur vel saman en þrjú þeirra komu að Suss! á sínum tíma. Nú syngja þau og spila á hljóðfæri að auki, svo ekki sé nú minnst á loftfimleikana sem þræða verkið saman. Allt þetta framkvæma þau af krafti. Halldóra Rut Baldursdóttir er kankvís á sviði og með góða tímasetningu. Guðmundur Ingi Þorvaldsson nýtur sín best í tónlistarsenunum og þegar hann fær að lausan tauminn. Þarna sjá áhorfendur nýja hlið á reyndum leikara. Laufey Elíasdóttir var svolítið óörugg í byrjun en dafnaði með hverri senu þar sem bæn hennar til guðs stendur upp úr. En það er Albert Halldórsson sem stelur senunni hér með virkilega góðum leik þar sem hann ferðast lipurlega á milli húmorsins og einlægninnar. Lítið hefur farið fyrir honum á sviði eftir útskrift úr Listaháskóla Íslands en hann á svo sannarlega skilið fleiri tækifæri á fjölunum.

Listræna teymið skilar af sér gríðargóðu verki, öll sem eitt. Þórunn María Jónsdóttir hefur einfaldleikann í fyrirrúmi hvað varðar leikmynd og búninga en gætir þess að hvert smáatriði sé vel unnið. Sviðsmyndin sjálf stendur þó upp úr í öllum sínum einfaldleika þar sem silkimjúk tjöldin umbreytast í urmul ástartákna og litlir steinar verða að fjallgörðum. Helga Svavari Helgassyni fer tónlistarstjórnunin vel úr hendi, hún er bæði frumlega útfærð og grípandi. En óþægilegt er að vita ekki úr hvaða átt tónlistin er samkvæmt leikskrá. Á einhverjum tímapunkti virtust tónar Anne Dudley úr þáttunum um Jeeves og Wooster óma um salinn en stór hluti tónsmíðanna hljómaði þó eins og frumsaminn.

Ahhh?… er framfaraskref fyrir RaTaTam hópinn og er slíkt gleðifréttir, því oft eru leikhópar landsins fastir í sama farinu. Hér meitlar hópurinn sína framsetningu, sterkur texti og leikstjórn leika þar stórt hlutverk. Sýningin hefur kannski ekki línulega framvindu en kærleikurinn kemur alltaf á óvart líkt og sýningin sjálf. Sigríður Jónsdóttir

Niðurstaða: Öðruvísi og ögrandi sýning um afkima ástarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.