Engin merki um myglu fundust á lungnadeild Landspítalans í eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins, að sögn framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landspítalans.
Greint var frá því í gær að Vinnueftirlitið hefði lokað tveimur herbergjum á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi vegna rakaskemmda og fúkkalyktar.
„Lyktin stafaði frá lögn inni í vegg sem gaf sig og orsakaði raka í innvegg,“ segir Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítala.
„Viðgerð er nú þegar lokið og verða herbergin tekin í notkun eftir þrif, sem verða væntanlega í dag.
Engin merki fundust um myglu.“
Vinnueftirlitið fór í eftirlitsheimsókn á lungnadeildina í lok janúar og sagði í skoðunarskýrslu að í lyfjaherbergi væru sjáanlegar rakaskemmdir og megn fúkkalykt. Þá hafi verið gat á vegg þar sem hægt var að sjá rör í veggnum.
„Vinnueftirlitið kom á staðinn þegar viðgerð var í gangi og skrifaði skýrslu sem fréttamiðlar vísa nú í,“ segir Ingólfur.
Vinnueftirlitið veitti spítalanum frest til 28. febrúar til að tilkynna um úrbætur og útfærslur á þeim í tengslum við rakaskemmdirnar í lyfjaherberginu.
