Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli sem sendi Real áfram í úrslitin því fyrri leikurinn fór 2-1 fyrir Real í Þýskalandi. Marcelo lagði upp annað mark Real í upphafi seinni hálfleiks. Undir lok þess fyrri var ákall frá stuðningsmönnum Bayern um vítaspyrnu eftir að boltinn virtist fara í höndina á Brasilíumanninum innan vítateigs.
„Boltinn fór í höndina á mér. Ég get ekki mætt hingað og rætt um dómarann en þetta gerðist, ef ég segði að boltinn hefði ekki farið í höndina á mér þá væri ég lygari,“ sagði Marcelo eftir leikinn.
„Við hugsum bara einn leik í einu. Við byrjuðum tímabilið illa en nú þurfum við að njóta þessa árangurs.“
„Að ná fjórum úrslitaleikjum á fimm árum er mjög erfitt og ég trúi því að við séum að skrifa fótboltasöguna,“ sagði Marcelo.