Íbúum hefur fjölgað látlaust á Suðurnesjum á síðustu árum. Í fyrra fjölgaði þeim um 7,4 prósent en til samanburðar var fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu um 2,6 prósent. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir þetta reyna á innviði og telur leggja þurfi aukna áherslu á stofnanir ríkisins á svæðinu; líkt og lögreglu og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
„Ríkisstofnanir eru ekki kannski að fá nægilega miklar fjárveitingar til að halda í við þennan gríðarlega fjölda sem hefur bæst við hjá okkur," segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Heilbrigðisstofnunin hafi orðið verst úti. „Það vantar fleira fólk þangað, það vantar fjárveitingar og fleiri lækna. Fleira fólk til starfa," segir Kjartan.

Stofnunin þurfi aukið fjármagn til að stækka húsnæðið og ráða starfsfólk. Ráðningar strandi þó ekki einungis á fjármagni þar fólk hefur ekki fengist til starfa. Til stóð að halda úti fæðingarþjónustu í sumar en enginn fékkst í afleysingarstörf. Halldór segir ástandið hafa leitt til biðlista og að fólk sé jafnvel farið að leita út fyrir sveitarfélagið í læknisþjónustu.
„Sérstaklega í heilsugæslu eru langir biðlistar. Það er hvorki næg aðstaða né nægur mannafli til þess að geta afgreitt þessa þjónustu nógu hratt," segir Halldór.