Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að úttekt Vinnueftirlits ríkisins á verksmiðjunni fór fram tæpum mánuði eftir að starfsemi hófst. Þá var ekki kannað hvort aðstandendur verksmiðjunnar hefðu fjárhagslega burði til að standa að henni.
Tíu ára sorgarsaga United Silicon og fyrirrennara félagsins er flestum kunn.

Mánuði áður en verksmiðjan var ræst sendi Magnús Garðarsson, forstjóri United Silicon, bréf um að til stæði að hefja framleiðslu í lok október.
Það dróst sem fyrr segir um hálfan mánuð.
Fyrsta skoðun Vinnueftirlits ríkisins fór hins vegar fram 21. nóvember það ár.
Þá fór úttekt á starfseminni með tilliti til starfsleyfisskilyrða ekki fram fyrr en 7. desember þrátt fyrir að óheimilt sé lögum samkvæmt að rekstur hefjist fyrr en eftirlitsmaður stofnunarinnar hafi gefið vottorð um að útbúnaður sé í lagi.
Slíkt vottorð var gefið út þrátt fyrir að skilyrði þess hafi ekki verið uppfyllt.
Í skýrslunni er einnig vikið að mengunarspá í umhverfismatsferlinu.
Áður hefur komið fram að danska verkfræðistofan COWI fór fram á að nafn og merki fyrirtækisins yrðu fjarlægð af loftdreifilíkani í matsskýrslu sem fyrirtækið skilaði til Skipulagsstofnunar.
Degi eftir að tilkynning COWI barst skilaði United Silicon skýrslu sem Force Technology hafði unnið að beiðni þess.
„Í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum er ekki að finna nein skilyrði um þá sem geta unnið að mati á umhverfisáhrifum, svo sem um menntun, vottun eða gæðakerfi. Að mati Skipulagsstofnunar gat það því ekki ráðið úrslitum hver vann spána. […] Ríkisendurskoðun telur aftur á móti óheppilegt að óvissa geti ríkt um uppruna útreikninga og líkana sem miklu máli skipta í mati á umhverfisáhrifum og að framkvæmdaraðilar geti lagt fram gögn í nafni fyrirtækja sem hafa ekki unnið þau þó að efnislega kunni niðurstöður þeirra að vera réttar,“ segir meðal annars í skýrslunni. Stofnunin leggur til að umhverfis- og auðlindaráðuneytið skerpi á kröfum sem gerðar eru til þeirra sem vinna umhverfismöt.

Í þágildandi lögum um ívilnunarsamninga var gerð krafa um óflekkað mannorð og orðspor framkvæmdastjóra aðila. Ekki fór fram nein könnun af hálfu stjórnvalda þess efnis heldur voru yfirlýsingar aðila teknar góðar og gildar.
Könnun á slíku hefði hins vegar leitt í ljós að árið 2009 var fyrirtæki í eigu Magnúsar Garðarssonar sektað vegna brota á réttindum verkamanna og að honum hefði verið gert að segja upp hjá áðurnefndu COWI fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína sem starfsmaður þar.