Hægt væri að koma í veg fyrir þúsundir krabbameinstilfella á Íslandi ef dregið yrði úr reykingum. Vísindamenn á Norðurlöndum hafa reiknað út að ef allir Íslendingar hefðu hætt að reykja árið 2014, þegar um 14 próent landsmanna reyktu, hefði verið hægt að koma í veg fyrir 5.300 krabbameinstilfelli hér á landi fyrir árið 2045.
Í tilkynningu frá Krabbameinsfélagi Íslands, sem stóð meðal annars að rannsókninni, segir að notast hafi verið við útreikninga sem byggjast meðal annars á tölum um reykingavenjur, fólksfjölgun og krabbamein sem geta orsakast vegna reykinga; eins og krabbamein í lungum, vélinda og þvagblöðru.
Þar segir jafnframt að ef hlutfall reykingamanna myndi lækka þannig að það væri komið niður í fimm prósent árið 2030 og þrjú prósent árið 2040 mætti koma í veg fyrir 2.600 krabbameinstilfelli á Íslandi fram til ársins 2045.
Árið 2017 reyktu 22.000 manns eða 9 prósent landsmanna. Sem fyrr segir reyktu um 14 prósent Íslendinga árið 2014 og er fækkun í röðum reykingarmanna því um 13 þúsund manns á tæpum þremur árum. Tæp 40 prósent hafa hætt að reykja á þeim tíma.
„Þótt við vitum vel að reykingar valdi krabbameinum er engu að síður óhugnanlegt að sjá svona svart á hvítu hve mikil áhrif þær hafa. Ég vona að niðurstöðurnar opni augu stjórnmálamanna sem eiga að axla ábyrgð og efla aðgerðaráætlanir gegn tóbaksnotkun í samfélaginu. Við getum gert enn betur og það er sannarlega ekki eftir neinu að bíða,“ er haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Íslands, í tilkynningunni.
Rannsóknin, sem birtist í European Journal of Cancer, var gerð með stuðningi Samtaka Norrænna Krabbameinsfélaga og vann úr niðurstöðum frá krabbameinsskrám fimm Norðurlanda; Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.
Þúsundir Íslendinga gætu komist hjá krabbameinum ef færri reyktu

Tengdar fréttir

Prófessor telur rafrettur góða tóbaksvörn
Vinda þarf ofan af frumvarpi heilbrigðisráðherra um rafsígarettur að mati Halldóru Mogensen formanns velferðarnefndar Alþingis. Linda Bauld prófessor við Stirling háskóla í Bretlandi kom fyrir nefndina í morgun og ráðlagði nefndarfólki að grípa tækifærið og nýta rafrettur til tóbaksvarna.

Reykingar hvergi minni en á Íslandi
Níu prósent eða 22 þúsund Íslendinga reykja. Slíkar tölur hafa ekki sést fyrr.

Segir 40 prósent tíundu bekkinga hafa veipað
Fjögur af hverjum tíu ungmennum í tíundabekk hafa prófað að veipa og tóbaksreykingar hafa aukist lítillega samkvæmt nýrri könnun Rannsókna og greiningu.