Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði fram tillögu þess efnis í borgarráði í gær að dýrahald skuli leyft í félagslegu húsnæði í eigu borgarinnar. Kolbrún er áheyrnarfulltrúi í ráðinu.
Í rökstuðningi með tillögunni kemur fram að rannsóknir hafi sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Slíkt geti aukið tilfinningalega og líkamlega vellíðan og sjálfstraust.
„Ekkert getur komið í stað tengsla við aðra manneskju en gæludýr geta uppfyllt þörf fyrir vináttu og snertingu,“ segir í greinargerðinni. Þar segir jafnframt að það sé átakanlegt að fólk hafi þurft að láta frá sér gæludýr vegna þess að þau eru ekki leyfð í íbúðunum.
„Að banna gæludýr eins og hunda og ketti í félagslegu húsnæði borgarinnar er ómanneskjulegt og ástæðulaust.“
