Tuttugu og fimm milljónir króna verða strax á þessu ári lagðar í ýmis verkefni er miða að því að fækka sjálfsvígum á Íslandi.
Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, á málþingi sem fór fram í Íslenskri erfðagreiningu í dag í tilefni Alþjóðlegs forvarnardags sjálfsvíga.
Þar tilkynnti heilbrigðisráðherra að hún hefði samþykkt allar tillögur er komu frá starfshópi sem vann aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Í starfshópnum sátu meðal annars fulltrúar frá embætti landlæknis, Landspítalanum og Geðhjálp.
Í áætluninni felast fimmtíu tillögur og segir Svandís að það ráðist á næstu dögum hvaða aðgerðir verða fyrst fjármagnaðar.
„Þarna var ég í raun og veru með fjármagn sem var eyrnamerkt forvarnarverkefnum sem var ekki búið að ráðstafa í tiltekin verkefni en ég taldi að þarna væri um það vel ígrundaða áætlun að ræða að rétt væri að gefa henni vind í seglin og fjármagna að þessum hluta. Síðan sjáum við hvað gerist meira í fjárlagavinnu," segir Svandís.
Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
