„Mér finnst borgarlínuorðið mjög gott og nota það gjarnan sjálfur um hágæða almenningssamgöngukerfi sem er hugtakið sem er notað í þessu samkomulagi. Í þeim skjölum sem vísað er í er orðið borgarlína líka notað þannig að ég held að það taki ekki langan tíma að fjalla um það í þeirri vinnu sem fram undan er,“ segir Dagur B. spurður út í málið.

„Það er ekki nein einstök framkvæmd tilgreind þarna, heldur er talað um samgöngur á stofnbrautum, umferðarflæði, nútímaalmenningssamgöngur, ekkert hugtak eða nafn á neinum tilteknum framkvæmdum notað,“ segir Sigurður Ingi. Fjallað sé almennt um þetta en afraksturinn verði síðan tilteknar framkvæmdir og samkomulag um þær.
Dagur sagði við undirritunina í gær að öllum vafa væri nú eytt um skiptingu kostnaðar við borgarlínuverkefnið. Eyþór Arnalds sagði á Facebook-síðu sinni í gær að það væri vissulega fagnaðarefni að farið yrði í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eftir stórt stopp en að ljóst væri að Miklabraut í stokk væri ekki væntanlegt verkefni næsta áratuginn og að borgarlínan væri ófjármögnuð.
Viljayfirlýsingin er um að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að ná samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í viljayfirlýsingunni er talað um að hefja framkvæmdir við hágæða almenningssamgöngur á þarnæsta ári, eyða flöskuhálsum og stefna að sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaganna, eins og það er orðað í yfirlýsingunni.