Mjög sjaldgæf flaska af viskíi seldist á uppboði í Edinborg í Skotlandi fyrir metfé fyrr í dag. Um var að ræða sextíu ára Macallan Valerio Adami 1926 og var hún seld á 848.750 bresk pund, eða um 126 milljónir króna á núvirði.
Samkvæmt upplýsingum frá uppboðshúsinu Bonham á kaupandinn að vera frá austurlöndum fjær og vera mikill áhugamaður um viskí.
Viskí er sagt vera vinsæll kostur fyrir fjárfesta til að ávaxta pund sitt þegar óvissa ríkir á mörkuðum.
Alls hafa verið framleiddar tólf viskíflöskur með merkimiða sem hannaðir eru af ítalska listamanninum Valerio Adami. Ekki er vitað hvað margar þeirra eru enn í umferð, en ein þeirra er sögð hafa eyðilagst í jarðskjálfta í Japan árið 2011.
