Ísland á titil að verja í stúlknaflokki á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum. Stúlknaliðið keppir í undanúrslitum í kvöld. Þjálfari liðsins segir það líta mjög vel út.
Liðið æfði í keppnishöllinni í gær, síðasta æfingin fyrir mótið sem hefst í kvöld. Katrín Pétursdóttir, dansþjálfari liðsins, var ánægð með æfingu gærdagsins.
„Þær voru ótrúlega flottar, yfirvegaðar og kláruðu sitt og við gætum ekki verið stoltari af þeim,“ sagði Katrín.
Liðið í dag er allt annað en það sem vann gullverðlaunin fyrir tveimur árum í Slóveníu, aðeins ein stúlka úr því liði er enn í liðinu í dag.
„Við erum búnar að leggja okkar af mörkum, æfa vel, og ætlum að skila því sem við getum. Svo sjáum við bara hver niðurstaðan verður.“
Stúlknaliðið keppir til undanúrslita í kvöld, klukkan 19:00 að íslenskum tíma, og verður fylgst vel með gangi mála hér á Vísi.

