Mörk frá Rafinha og Jordi Alba tryggðu Börsungum 2-0 sigur á Inter Milan í B-riðli Meistaradeildarinnar. Leikið var á Camp Nou í kvöld.
Barcelona hafði tögl og haldir á leiknum allt frá upphafi. Rafinha skoraði á 32. mínútu og Jordi Alba tvöfaldaði forystuna sjö mínútum fyrir leikslok.
Börsungar eru með níu stig á toppi riðilsins, Inter í öðru með sex, Tottenham í þriðja sætinu með eitt og PSV einnig með eitt stig í fjórða sætinu.
Í A-riðlinum rúlluðu Borussia Dortmund yfir Atletico Madrid en lokatölur urðu 4-0. Tvö mörk frá Raphael Guerreiro og eitt frá Axel Witsel og Jadon Sancho tryggðu sigurinn.
Dortmund er með níu stig á toppnum en Atletico Madrid fylgir þar fast á eftir með sex stig. Mónakó og Club Brugge eru með eitt stig á botni riðilsins.
Í D-riðlinum gerðu Schalke og Galatasary markalaust jafntefli og Porto vann 3-1 sigur á Lokomotiv Moskvu í ansi fjörugum leik.
Porto er með sjö stig, Schalke fimm, Galatasary fjögur og Lokomotiv er á botninum án stiga.
Barcelona hafði betur gegn Inter og Dortmund rústaði Atletico Madrid
