Það var ekki boðið upp á mikla flugeldasýningu er Cristiano Ronaldo heimsótti sinn gamla heimavöll er Juventus vann 1-0 sigur á Man. Utd á Old Trafford í kvöld.
Fyrsta og eina mark leiksins kom á sautjándu mínútu. Eftir fyrirgjöf Ronaldo barst boltinn út í teiginn þar sem Paulo Dybala kom boltanum í netið.
Fjórða mark Argentínumannsins í Meistaradeildinni þennan veturinn og hann hefur nú þegar jafnað sitt besta markahlutfall í Meistaradeildinni.
United sýndi lítið í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik kom örlítill kraftur. Næstur komst Paul Pogba er hann þrumaði boltanum í stöngina.
Nær komust United ekki og ansi tíðindalítill leikur á Old Trafford í kvöld sem endaði með 1-0 sigri ítölsku meistaranna.
Juventus er á toppnum með níu stig, United er í öðru með fjögur, Valencia í því þriðja með tvö og Young Boys á botninum með eitt.
Ronaldo með sigur í endurkomunni á Old Trafford
