Einstaklingurinn sem reyndi að sprengja upp rútu þýska fótboltaliðsins Borussia Dortmund var í dag dæmdur í fjórtán ára fangelsi í Þýskalandi.
Ekki er vitað hver þessi maður er en hann er kallaður Sergej W í málsskjölum. 29 ára gamall Rússi sem fluttist til Þýskalands er hann var 13 ára gamall. Hann hefur rétt á nafnleynd. Hann var sakfelldur fyrir að hafa reynt að myrða 28 manns.
Hann á þess utan að greiða sekt upp á rúmar tvær milljónir króna til handa varnarmanninum Marc Bartra sem meiddist mest í árásinni. Hann þurfti að fara í aðgerð þar sem sprengjubrot var fjarlægt úr handlegg hans.
Sergej sprengdi þrjár sprengjur er rúta liðsins fór frá hóteli sínu fyrir leik í Meistaradeildinni. Mikil mildi þótti að enginn skildi látast í þessari árás.
Saksóknari sagði að Sergej W. hefði slegið lán og síðan veðjað á að hlutabréf í Dortmund myndu falla. Þannig ætlaði hann að græða. Hann reyndi að klína glæpnum á hryðjuverkasamtök en komst ekki upp með það.
Saksóknari vildi fá Sergej dæmdan í lífstíðarbann. Sprengjumaðurinn sagðist aldrei hafa ætlað að myrða neinn.
Sprengjumaðurinn í Dortmund fékk þungan dóm

Tengdar fréttir

Leik Dortmund og Monaco frestað vegna sprengjuárásar
Meistaradeildarslagur Dortmund og Monaco fer ekki fram eftir að sprengja slasaði leikmann þýska liðsins.

Ætlaði ekki að reyna að drepa leikmenn Dortmund
Réttarhöld standa nú yfir manni sem er ákærður fyrir að sprengja upp rútu Borussia Dortmund þegar hún var á leiðinni í leik í Meistaradeildinni á síðasta ári.