Þýðandinn Bjarni Gunnarsson hlaut í kvöld Ísnálina fyrir glæpasöguna Sonurinn eftir norska glæpasagnahöfundinn Jo Nesbø. Bjarni tók við verðlaununum á alþjóðlegu glæpasagnahátíðinni Iceland Noir sem fór fram í Iðnó í kvöld.
Ísnálin er veitt ár hvert fyrir bestu þýddu glæpasöguna á íslensku þar sem saman fara góð þýðing og góð saga.
Þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru veitt og í annað sinn sem Nesbø og Bjarni hljóta verðlaunin en árið 2015 hlutu þeir Ísnálina fyrir glæpasöguna Blóð í snjónum.
Dómnefndina skipa Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Kolbrún Bergþórsdóttir menningarrýnir og blaðamaður, Jóhann R. Kristjánsson og Ragnar Jónasson.
Að Ísnálinni standa Iceland Noir glæpasagnahátíðin, Hið íslenska glæpafélag og Bandalag þýðenda og túlka.
