Magnús Þór segir að skólastjórnendur hafi fyrst lýst áhyggjum sínum af rafrettunotkun barna- og unglinga fyrir um tveimur árum.
„Og hversu einfalt það virtist vera fyrir börn að nálgast hana,“ segir Magnús Þór. Samkvæmt rannsókn um lýðheilsu ungs fólks sem nýlega var unnin var af rannsóknarmiðstöðinni Rannsóknum og greiningu höfðu rúm 45 prósent 10. bekkinga á landinu einhvern tímann prófað rafrettur. Ellefu prósent 10. bekkinga notuðu rafrettur daglega.

„Við greinum það í umhverfi okkar að við erum að eiga við ákveðna áhættuhegðun í öðrum þáttum sem við þurfum auðvitað að horfa til,“ segir Magnús Þór og útskýrir að þannig sé tilfinning skólastjórnenda að börn sem noti rafréttur séu orðin markhópur þeirra sem laumi að þeim öðrum efnum.
„Að þetta hafi leitt krakka út í einhverskonar grasreykingar og aðra hluti sem við höfum ekki orðið vör við í langan tíma,“ segir Magnús Þór.
Nýlega samþykkti Alþingi lög um rafrettur þar sem segir að ekki eigi að leyfa sölu á rafrettum til einstaklinga undir 18 ára aldri. Lögin taka hins vegar ekki gildi fyrr en þann 1. mars 2019 næstkomandi.
Magnús segir að börn allt niður í 6 bekk fikti við rafrettur. Hins vegar sé það mun algengara í unglingadeildunum en eins og áður sagði höfðu rúm 45 prósent 10 bekkinga prófað rafrettur. „Þegar þú ert kominn með svona stóran fikthóp að þá erum við að tala um bylgju sem við vorum ekki nægilega undirbúin fyrir og verðum auðvitað sem samfélag að taka á,“ segir Magnús Þór.