InterContinental opnaði hótel í Sjanghæ í Kína í samstarfi við samfélagsmiðilinn WeChat í gær. Hótelið er merkilegt fyrir þær sakir að flestu þar er stýrt í gegnum appið WeChat. Þannig er hægt að bóka herbergi, skrá sig inn, opna dyr og panta herbergisþjónustu í gegnum appið og komast hjá öllum mannlegum samskiptum, vilji maður það.
WeChat er stærsti samfélagsmiðillinn í Kína og eru möguleikarnir nær endalausir. Hægt er að spjalla, bera saman verð, greiða fyrir vörur, millifæra á vini, fylla á inneign fyrir síma, borga reikninga, hringja myndsímtöl, fylgjast með póstsendingum, panta mat eða bóka borð, telja skref og svo framvegis og svo framvegis.
Hótelið í Sjanghæ er þó ekki fyrsta svokallaða „snjallhótelið“ í Kína. Áður hafa slík hótel verið opnuð í samstarfi hótelkeðja við tæknirisa á borð við til að mynda Baidu og Alibaba.
