Í þættinum Plato’s Stepchildren, sem var tíundi þáttur af þriðju seríu í Star Trek-þáttaröðinni, gerðust undur og stórmerki í bandarísku sjónvarpi. Þá greip sjálfur Kirk kafteinn liðsforingjann Uhura og smellti á hana rembingskossi. Var þetta í fyrsta sinn í bandarísku sjónvarpi sem fólk af ólíkum kynþáttum kysstist. Sjónvarpssagnfræðingar hafa þó bent á að í þættinum Adventures in Paradise, sem var frumsýndur 1960 kysstust þau Gardner McKay og Pilar Seurat, en hún var frá Filippseyjum. Ári síðar kysstust þau Nobu McCarthy og Robert Fuller í þættinum Laramie en foreldar McCarthy eru frá Japan.
Þá hafa sagnfræðingar sjónvarpsins bent á að varir þeirra sjást aldrei snertast þó Nichols hafi sagt í ævisögu sinni, Beyond Uhura, að kossinn hafi aldeilis verið ekta og varir þeirra svo sannarlega snerst.
NBC-sjónvarpsstöðin, sem framleiddi Star Trek, hafði töluverðar áhyggjur af kossinum og að hann myndi vekja reiði áhorfenda. Sérstaklega í suðrinu, Alabama, Georgíu, Mississippi og álíka ríkjum. Í bók sinni segir Nichols að þátturinn hafi þó fengið aðeins eitt bréf þar sem kvartað var undan kossinum. „Það streymdu inn bréf frá aðdáendum sem öll voru á jákvæðu nótunum. Engum fannst kossinn eitthvað móðgandi. Nema einum hvítum suðurríkjamanni sem skrifaði að hann væri algjörlega á móti því að blanda kynþáttum saman. En þegar kafteinninn fengi glæsilega dömu í fangið þá sleppti hann ekki tækifærinu,“ skrifaði hún.
Kynþáttakossinn sem braut skjái Bandaríkjamanna
