Lífið

Hlaðvarp um krabbamein

Benedikt Bóas skrifar
Hulda Hjálmarsdóttir, formaður Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Hulda Hjálmarsdóttir, formaður Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastýra Krafts, segir að 20 ára afmælisár félagsins verði stútfullt af viðburðum og fróðleik. Meðal þess sem verður gert eru 10-12 hlaðvarpsþættir en fyrsti þátturinn verður tekinn upp í dag.

„Félagsmenn okkar búa yfir svo ótrúlega víðtækri reynslu sem getur nýst öðrum til góðs. Viðhorf okkar félagsmanna eru eftirtektarverð og markmiðið er að fræða fólk sem er í þessum sporum um hvað maður er að takast á við,“ segir Hulda.

Hún segir að planið sé að ræða opinskátt um hvernig það sé að vera í þessum aðstæðum og finna alla mögulega vinkla til að tala um. Meðal annars verður rætt um kynlíf, útlitsbreytingu, börn, aðstandendur og fleira. „Herbert Mckenzie verður umsjónarmaður en hann hefur verið með hlaðvarpið Prímatekið. Mér fannst það betra að fá einhvern sem stendur utan við félagið til að sjá um þetta. Ef þetta væri ég til dæmis, myndi ég spyrja öðruvísi en hann sem stendur utan við.“

Hlaðvarpið er aðeins hluti af dagskránni sem verður yfir afmælisárið en það mun byrja með pompi og prakt þann 12. janúar þegar hátíðin Lífið er núna verður haldin fyrir félagsmenn.

„Við erum alltaf að minna hvert annað á að njóta líðandi stundar með því að skapa vettvang þar sem fólk getur komið saman til að skapa góðar minningar, hvort sem það er með viðburðum eða sögum sem endurspegla að njóta skal líðandi stundar og að lífið sé núna eins og armböndin okkar minna á.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.