Tónlist

Orri Freyr velur plötur ársins 2018

Stefán Árni Pálsson skrifar
Orri þekkir tónlist mjög vel en hann starfaði lengi vel á X-977.
Orri þekkir tónlist mjög vel en hann starfaði lengi vel á X-977. mynd/Atli Þór Einarsson
Fjölmargar plötur komu út á árinu 2018 og slógu margar þeirra rækilega í gegn. Vísir mun á næstu dögum ræða við tónlistarspekinga og hafa þeir allir valið þrjá bestu innlendu plötur ársins og þrjár bestu erlendu plötur ársins 2018.

Útvarpsmaðurinn Orri Freyr Rúnarsson hefur tekið saman sex plötur sem þóttu skara fram úr á árinu.

Íslenskar plötur ársins:

1.  Auður - Afsakanir

Óttaðist að verða fyrir vonbrigðum með þessa plötu þar sem allir töluðu svo vel um hana og væntingarnar því miklar. En þetta er einfaldlega besta plata ársins á Íslandi. Frábærar lagsmíðar og textarnir ekki síðri. Bravó!

2. Prins Póló - Þriðja kryddið

Prins Póló heldur áfram að dæla út partýplötum. Þessi plata inniheldur allt sem góð Prins Póló plata á að innihalda. Ef ég ætti að velja einn listamann til að semja plötu um líf mitt yrði það Prins Póló, er sá eini sem gæti gert það áhugavert og skondið.

3. Valdimar - Sitt sýnist hverjum

Full af plötum sem eiga skilið að vera á þessum lista, t.d. JóiP & Króli, GDRN o.fl. En mér finnst þetta vera svo mikil “comeback” plata hjá Valdimar. Það skemmir ekki fyrir að söngvari sveitarinnar er það góður að ég myndi eflaust hlusta á hann raula uppskriftir að örbylgjumat.

Erlendar plötur ársins:

1. Rolling Blackouts Coastal Fever - Hope Downs


Það segir ýmislegt um tónlistarárið erlendis að besta plata ársins er með nokkuð óþekktri ástralskri indie-hljómsveit. Þetta er samt sú plata sem ég set oftast í gang þegar ég vil bara hlusta á eitthvað skemmtilegt og hressandi.

2. Jon Hopkins - Singularity

Ég er með þá undarlegu reglu að dansa aðeins einu sinni á ári. Hef ekkert dansað það sem af er ári en það breytist um áramótin þegar ég leyfi gestum og gangi að verða vitni að gleðinni undir tónum af Singularity með Jon Hopkins.

3. Janelle Monáe - Dirty Computer

Þetta er eiginlega hin fullkomna popp-plata. Þetta er platan sem maður setur á þegar að maður ætlar bara að keyra eitthvað út í buskann þangað til að bíllinn verður bensínlaus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.