Nokkrir nafntogaðir einstaklingar voru mættir í dómsal til að sýna Báru stuðning. Þar á meðal Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri, Mörður Árnason fyrrverandi þingmaður, Freyja Haraldsdóttir fyrrverandi varaþingmaður og tónlistarmaðurinn Hörður Torfason.
Þingfesting málsins fór fram í dómsal 101 sem er stærsti salur Héraðsdóms Reykjavíkur. Setið var í hverju sæti og komast færri að en vildu. Þeir sem komust þó ekki inn í salinn biðu eftir að þingfestingunni væri lokið og hylltu Báru þegar hún kom út úr þingsalnum.
Þingmennirnir fjórir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Ólafsdóttir og Bergþór Ólason.

Sagði hann það afar sérkennilegt að Bára neitaði að gefa skýrslu fyrir dómi og sagði það benda til þess að hún hefði eitthvað að fela.
Einhverjir sem sátu í dómsal hlógu á meðan Reimar flutti mál sitt og sumir ræsktu sig hressilega yfir fullyrðingum hans.
Á einum tímapunkti þegar Reimar flutti mál sitt hrópaði ein stuðningskona Báru að Reimari: „Fífl!“

Verjandi Báru, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, sagði að Bára hefði þegar stigið fram í blaðaviðtölum og greint frá sinni aðkomu að málinu. Því væru forsendur vitnamáls fyrir dómi brostnar og þess vegna bæri að hafna þessari kröfu.

Reimar vildi einnig fá aðgang að myndefni frá Alþingi og Dómkirkjunni sem og inni á Klaustur-bar til að varpa ljósi á hvernig Bára stóð að þessari upptöku og hvort hún hefði verið ein að verki. Sagði Reimar að umbjóðendur hans drægju frásögn hennar í blaðaviðtölum í efa.
Þegar lögmennirnir höfðu lokið máli sínu sagði dómari að málið yrði tekið til úrskurðar og búast mætti við niðurstöðu undir lok vikunnar, en það gæti þó dregist.