Gunnlaugur hefur haft sig mikið í frammi í baráttunni gegn sjókvíaeldi á Austfjörðum, meðal annars sem formaður Veiðifélags Breiðdæla. En hann á einnig hagsmuna að gæta sem sóknarprestur sem nýtur hlunninda af prestsjörðinni Heydölum. Hagsmuna af veiði á villtum laxi á svæðinu sem hann hefur lýst yfir opinberlega að hann telji sjókvíaeldi stofna í voða.

Guðmundur Gíslason, forsvarsmaður Fiskeldis Austfjarða, vildi ekkert tjá sig um kvörtunina þegar eftir því var leitað. Erindi fyrirtækisins var tekið fyrir á fundi kirkjuráðs þjóðkirkjunnar í síðasta mánuði.
Í fundargerð fundarins segir:
„Kirkjuráð samþykkti að fela fjármálahópi kirkjuráðs að óska eftir því við ábúandann, sóknarprestinn í Heydölum, að hann komi á næsta fund fjármálahópsins til að ræða um málefni prestssetursjarðarinnar Heydala.“
Málið virðist á viðkvæmu stigi því Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, vildi heldur ekki tjá sig um kvörtunina á hendur sóknarprestinum fyrir austan. Segir Oddur að málið sé í ákveðnu ferli eins og komi fram í fundargerðinni og meðan það sé í vinnslu verði fjölmiðlum ekki veittur aðgangur að gögnum málsins heldur.
Sem dæmi um hitann í eldisdeilunum fyrir austan má nefna að aðalfundur Veiðifélags Breiðdæla, sem Gunnlaugur veitir formennsku, sendi síðastliðið sumar frá sér harðorða bókun þar sem laxeldi í opnum sjókvíum við strendur Íslands var harðlega mótmælt. Meðal ummæla sem þar féllu voru að Íslendingar væru að „láta norska eldisrisa hafa sig að féþúfu“ og eldisiðja Fiskeldis Austfjarða í Berufirði væri „lögleysa, og trúverðugleiki stofnana, sem ábyrgð bera á útgáfu leyfa og eftirliti, er í molum og geta þær því tæpast talist marktækar“.
Ekki náðist í Gunnlaug Stefánsson í gær, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.