Ramos braut á Kasper Dolberg á 89. mínútu leiksins í stöðunni 2-1 fyrir Real. Hann náði sér þar í gult spjald sem þýðir að hann verður í leikbanni í næsta leik.
Vefsíðan FourFourTwo segir Ramos hafa viðurkennt að hafa viljandi náð sér í gult spjald eftir leikinn. Real er í vænlegri stöðu, með forystu í einvíginu og tvö útivallarmörk, og það er hagstæðara fyrir liðið að hafa Ramos ferskann og ekki í hættu á banni í 8-liða úrslitunum.
„Miðað við hver úrslitin voru þá væri ég að ljúga ef ég segðist ekki hafa gert þetta viljandi,“ er haft eftir Ramos.
„Þar er ég ekki að sýna andstæðingnum neina óvirðingu, né held ég að einvígið sé búið, en það þarf stundum að taka erfiðar ákvarðanir í fótbolta.“
Í gær skrifaði Ramos hins vegar á Twitter að „það særir mig að fólk haldi þetta, ég náði mér ekki viljandi í spjald.“
Quiero dejar claro que me duele más que a nadie, que no he forzado la tarjeta, como tampoco lo hice contra la Roma en mi anterior partido de @ChampionsLeague, y que apoyaré desde la grada como un hincha más con la ilusión de poder estar en cuartos.#HalaMadridhttps://t.co/zL0Heok5Vp
— Sergio Ramos (@SergioRamos) February 13, 2019
Eftir ummæli Ramos hefur UEFA ákveðið að hefja rannsókn á þessum ummælum og hvort Ramos hafi verið viljandi að brjóta af sér til þess að fá spjald.
Bara á síðasta tímabili kom upp svipað mál þegar liðsfélagi Ramos hjá Real, Dani Carvajal, fékk tveggja leikja bann fyrir að hafa viljandi náð sér í gult spjald undir lokin á 6-0 sigri á Apoel.
Þá hefur Ramos áður verið sagður hafa náð sér í spjöld viljandi til þess að komast hjá leikbönnum á seinni stigum.