Meistaradeildin ákvað að taka upp myndbandsdómgæslu í 16-liða úrslitunum og voru fyrstu leikirnir þar sem hún var til staðar í gærkvöldi. Þar komu þó ekki upp nein stór atvik en það gerði það svo sannarlega í kvöld.
Nicolas Tagliafico skoraði mark seint í fyrri hálfleik en það var svo dæmt af þar sem Dusan Tadic stóð fyrir Thibaut Courtois í teignum og var Tadic sagður í rangstöðu.
Courtois var spurður út í atvikið eftir leik og hann var ekki í neinum vafa.
„Var þetta rétt ákvörðun? Já, ég held það,“ sagði Courtois.
„Þegar ég sá þetta fyrst þá hélt ég að hann gæti verið rangstæður.“
„Þegar hann skallaði boltann þá vildi ég fara út og grípa boltann en útaf því hvar Tadic stóð þá komst ég ekki.“
„Sem betur fer er VAR því enginn hefði séð þetta annars,“ sagði Courtois.