Stuðningsmenn Liverpool eru út um allan heim og sumir þeirra eru hetjur úr öðrum íþróttagreinum.
Bandaríska körfuboltastjarnan LeBron James er ekki með í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í fyrsta sinn í fjórtán ár og ætti því að hafa nægan tíma til að fylgjast með sínu félagi í enska boltanum.
LeBron James eignaðist tveggja prósenta hlut í Liverpool árið 2011 og kostaði það hann um 6,5 milljónir dollara eða 796 milljónir íslenskra króna.
James á enn þá þennan hlut en eftir frábært gengi Liverpool liðsins undanfarin ár þá er hlutur hans mikli verðmeiri í dag.
Liverpool er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar annað árið í röð og háði harða baráttu við Manchester City um enska meistaratitilinn á þessu tímabili.
Bandaríski blaðamaðurinn Darren Rovell benti á það á Twitter að þessi tveggja prósenta hlutur LeBron James sé nú metinn á 35 milljónir dollara eða tæplega 4,3 milljarða íslenskra króna.
Liverpool is going to the Champions League Final. LeBron owns 2% of the team.
He paid $6.5 million for his original stake in 2011. Worth at least $35 million now. pic.twitter.com/mMtMlm6F7Q
— Darren Rovell (@darrenrovell) May 7, 2019
Það þýðir að hlutur LeBron James í Liverpool hefur meira en fimmfaldast á þessum átta árum síðan að hann keypti í félaginu, farið úr 796 milljónum íslenskra króna upp í 4,3 milljarða. Ekki slæm ávöxtun þar á ferðinni.
LeBron James fagnaði líka árangri sinna manna á Twitter eftir leikinn í gær.
‼️‼️‼️‼️‼️‼️ AMAZING NIGHT FOR THE REDS. WOW‼️‼️ #YNWAhttps://t.co/n9tuwtaj8z
— LeBron James (@KingJames) May 7, 2019
Liverpool mætir annaðhvort Ajax eða Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fram fer á Wanda Metropolitano leikvanginum í Madrid 1. júní næstkomandi.