Argentínski þingmaðurinn Héctor Olivares lést af sárum sínum í gær sem hann hlaut í skotárás við þinghúsið í miðborg höfuðborgarinnar Buenos Aires á fimmtudag. Lögreglan hefur sagt að árásin hafi verið í „mafíustíl“.
Auk Olivares varð Miguel Yadón, ráðgjafi hans, fyrir byssukúlum. Hann lést á vettvangi, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Olivares, sem var 61 árs gamall, gekkst undir aðgerð en lést á Ramos Mejía-sjúkrahúsinu í gær.
Lögreglan handtók nokkra félaga í glæpagengi á föstudag, þar á meðal einn sem hafði flúið yfir landamærin til nágrannaríkisins Úrúgvæ. Talið er að morðið hafi verið persónulegt en ekki pólitískt. Yadón, sem var 58 ára gamall, hafi verið skotmark árásarmannanna.
Washington Post segir að upptökur öryggismyndavéla bendi til þess að árásarmennirnir hafi gert tvímenningunum fyrirsát í bíl. Svo virðist sem að þeir hafi vísvitandi skilið Olivares eftir á lífi en helsærðan.
Þingmaður lést eftir skotárás við þinghúsið
Kjartan Kjartansson skrifar
